Elliði Vignisson, sveitarstjóri Í Ölfusi, segist ekki vera með rúmar tvær milljónir króna í mánaðarlaun líkt og Jæja-hópurinn heldur fram, heldur um 466 þúsund krónum minna.
Jæja hópurinn birti mynd af bæjarstjórum þeirra fimm sveitarfélaga þar sem vinnustöðvun Eflingar fer fram, ásamt mánaðarlaunum þeirra samkvæmt árinu 2019, en Sjálfstæðisflokkurinn fer með meirihluta í öllum sveitarfélögunum. Er hópurinn því kallaður „milljónasjallarnir“ af Jæja hópnum.
Sjá einnig: Sanna sýnir stuðning og deilir myndinni af „milljónasjöllunum“
Elliði segir þetta hinsvegar ekki rétt og birtir launaseðil sinn þessu til staðfestingar. Hann sendir Eflingu líka pillu og segir að það hljóti að vera erfitt að semja ef tölurnar séu á reiki:
„Ég hef starfað sem bæjarstjóri í 14 ár (tólf ár sem kjörinn og nú í tvö sem ráðinn eftir auglýsingu). Laun mín eru greidd af íbúum og því hafa þau aldrei verið feimnismál fyrir mér. Ég, eins og kollegar mínir um allt land, er með góð laun og fel það ekki. Þess vegna hef ég tryggt að upplýsingar um þau séu ætíð aðgengileg á vefsíðu sveitarfélagsins. Mér þykir það því furðulegt að í umfjöllun um sanngjörn laun skuli það þykja sanngjarnt að ýkja laun mín sem bæjarstjóra um hátt í hálfa milljón. Það hlýtur að vera erfitt að semja ef þetta er dæmi um það sem almennt er á ferðinni í þessum viðræðum. Þessu til sönnunar sé ég mér ekki annað fært en að birta nýjasta launaseðil minn.“
Jæja hópurinn segist byggja mánaðarlaun bæjarstjóranna á launum þeirra frá árinu 2019. Líklega eru þau þó fengin frá árinu 2018, en í tekjublaði Frjálsrar verslunar í fyrra var Elliði sagður með 2.26 milljónir í laun á mánuði. Tekjuútreikningar Frjálsrar verslunar byggja á útreikningum úr álagningarskrá ríkisskattstjóra og meta því heildarlaun ársins á undan, 2018.
Elliði var ráðinn í júlí 2018 til Ölfuss, en hafði áður verið bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.