Sem kunnugt er hófst verkfall Eflingar í Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ og Ölfusi í vikunni eftir árangurslausar samningsviðræður sveitarfélaganna við Eflingu.
Jæja hópurinn deilir nú mynd á samfélagsmiðlum af bæjarstjórum þeirra sveitarfélaga sem um ræðir með yfirskriftinni:
„Milljónasjallarnir sem vilja ekki að láglaunafólk fái laun sem duga fyrir lífinu.“
Allir koma bæjarstjórarnir úr röðum Sjálfstæðisflokksins og allir eiga það sammerkt að vera með um tvær milljónir króna í laun á mánuði, miðað við greiðslur ársins 2019, samkvæmt myndinni.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, deilir myndinni einnig á Facebook, en sem kunnugt er situr hún í minnihluta borgarstjórnar ásamt Sjálfstæðisflokknum.
Sanna skrifar engin skilaboð sjálf í deilingunni, en í texta Jæja hópsins segir:
„Deilið ef þið styðjið verkfallið!—Eflingarfólk fer nú fram á að fimm sveitarfélög hækki laun í samræmi við það sem samið var um í Reykjavík. Sveitarfélögin eru öll undir stjórn sjalla, fólks sem hefur milljónir í laun á mánuði, og það er ljóst að flokkurinn ætlar ekki að sýna kröfum láglaunafólks neinn skilning heldur þvert á móti. Allir eiga skilið launa sem duga. Styðjum hófsamar og réttlátar kröfur láglaunafólks!
Þessir bæjarstjórar Sjálfstæðisflokksins hafa þegar sýnt kjarabaráttu Eflingarfólks fullkomna vanvirðingu með því að hóta að setja lög á verkfallið og láta ekki ná í sig eins og bæjarstjóra Kópavogs sem virðist horfinn af yfirborði jarðar.“