Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, þykir sérkennilegt að þegar þau stórtíðindi gerast að hann hrósi fjármálaráðherra í ræðustól þá sé ekki flutt frétt um það heldur að við sama tækifæri hafi Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, kvartað undan klæðaburði hans.
Þorsteinn gerði athugasemd við það að Björn væri ekki klæddur í jakka heldur væri á skyrtunni er hann ræddi frumvarp um brottfall laga á Alþingi í dag.
Vefur RÚV greindi frá því að Þorsteinn hefði gert athugasemd við þetta við forseta þingsins, Steingrím J. Sigfússon. Í frétt RÚV segir:
„Eins og sést í útsendingu frá Alþingi var Björn Leví í hvítri skyrtu en engum jakka yfir þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu um brottfall ýmissa laga. Hann var í jakka þegar hann tók til máls undir liðnum störf þingsins fyrr í dag.
„Ég vil vekja athygli forseta á að það er þingmaður sem er bara í skyrtu,“ heyrist Þorsteinn segja við Steingrím en sjá mátti og heyra samskipti þeirra í útsendingu frá Alþingi. Þingmenn voru þá að greiða atkvæði og því nánast engin í salnum. „Ég læt tala við hann,“ svaraði Steingrímur.
Engar skriflegar reglur eru til um klæðnað þingmanna. Í svari forseta Alþingis til Björns Leví fyrir tveimur árum kom þó fram að ýmsar hefðir og óskráðar reglur giltu um fjölmargt í starfsemi Alþingis. Til að mynda væri venja að þingmenn klæddust formlegum og snyrtilegum klæðnaði á þingfundum.“
Björn Leví bregst við þessu með Facebook-pistli í kvöld. Þar kemur fram að hann hafi varpað af sér jakkanum vegna hita og gefur hann lítið fyrir þau viðhorf sem hann telur kvörtun Þorsteins lýsa: „Hverjum er ekki sama um átjándu aldar viðhorf um innihaldslausa virðingu fyrir skrautlegum umbúðum?“
Hann er líka hneykslaður á fréttaflutningnum:
„Allavega, umbúðalaust. Þá eru svona fréttir nákvæmlega eins og athugasemd Þorsteins um klæðnaðinn. Frétt um umbúðir en ekki innihald. Ég skil alveg skemmtanagildið í því en þetta er gersamlega tilgangslaus frétt. Nákvæmlega jafn tilgangslaus og mér finnst Þorsteinn Sæmundsson og miðflokkurinn vera á þingi. Hann beinlínis þvælist fyrir góðum málum sem allir eru sammála um að séu til bóta fyrir land og þjóð“
Björn bætir við að Miðflokkurinn sé flokkur sem tali „illa um konur og öryrkja ásamt því að nota sendiherrastöður sem pólitíska skiptimynt.“
RÚV bendir á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem gerðar séu athugasemdir við klæðaburð Björns Leví og rifjar upp athugasemdir Bjarna Benediktssonar þar að lútandi:
„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem athugasemdir eru gerðar við klæðnað Björns Leví. Hann greindi sjálfur frá því að hann hefði verið kallaður inn til skrifstofustjóra þingsins þar sem hann var spurður hvort hann gæti farið í skó. Það hefði nefnilega borist kvörtun.
Björn sagði í samtali við Visi á sínum tíma að hann hefði neitað þeirri beiðni og vísaði til þess að hann svitnaði óþarflega mikið ef hann væri lengi í skónum. Skóleysi þingmannsins hefur síðan stundum komið til tals í pólitískum umræðum. Til að mynda gerði fjármálaráðherra það að umtalsefni að þingmaðurinn skyldi vera með pólitískt skítkast á sokkaleistunum og í sitthvorum sokknum.“