RÚV skýrir frá þessu. Fundur ríkisstjórnarinnar stóð yfir í nokkrar klukkustundir í dag, þó með hléum. Að fundi loknum sagði Bjarni að ákveðið hefði verið að bregðast jákvætt við beiðni Icelandair um aðstoð.
„Við höfum á þessu stigi ákveðið að bregðast við með jákvæðum hætti við þeirri almennu ósk. Síðan er það frekara úrvinnsluatriði hvaða skilmálar kynnu að vera fyrir því.“
Hefur RÚV eftir Bjarna sem sagði að það væri síðan úrvinnsluatriði að ákveða hvaða form verður á aðstoðinni.
RÚV segir að fullyrt hafi verið að Icelandair þurfi að afla sér 22 til 29 milljarða króna og auka þannig hlutafé sitt.
Aðspurður sagði Bjarni ómögulegt að segja til um hversu mikil aðstoð ríkisins við Icelandair verður í krónum talið en ljóst sé að um háar upphæðir sé að ræða.