Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins í morgun var tilkynnt um úrslit formannskosninga og var Árni Sigurjónsson, yfirlögfræðingur Marel, kjörinn nýr formaður með 71,50% greiddra atkvæða. Árni verður formaður Samtaka iðnaðarins fram til Iðnþings 2022.
Bar hann sigurorð af Guðlaugu Kristbjörgu Kristinsdóttur, stjórnarformanni Límtré Vírnets og Securitas. Tekur hann við af Guðrúnu Hafsteinsdóttur, markaðsstjóra Kjöríss.
Alls gáfu sjö kost á sér til almennrar stjórnarsetur og var kosið um fimm sæti. Þeir sem setjast í stjórn Samtaka iðnaðarins til næstu tveggja ára:
Fyrir í stjórn Samtaka iðnaðarins eru:
Ályktun Iðnþings
Verjum það sem við eigum og sköpum ný tækifæri
Kólnun íslensks efnahagslífs var staðreynd í byrjun þessa árs og efnahagsleg óveðursský voru yfir Íslandi áður en heimsfaraldur kórónaveiru skók hagkerfi heimsins þar sem Ísland er ekki undanskilið. Atvinnuleysi er þegar orðið hátt og mun hækka frekar með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Svo gæti farið að atvinnuleysi á þessu ári verði það hæsta frá því mælingar hófust. Atvinnulífið dregur vagninn í verðmætasköpun þjóðarbúsins og því er það forsenda fyrir kröftugri viðspyrnu að öflug fyrirtæki standi af sér storminn. Þannig geta þau haldið fólki í vinnu og tryggt afkomu heimila landsins.
Ríki, sveitarfélög, Seðlabanki og fjármálafyrirtæki hafa þegar brugðist við til að milda höggið. Verkalýðshreyfingin hefur hins vegar kosið að sitja hjá. Samtök iðnaðarins harma að verkalýðshreyfingin skuli ekki sýna núverandi stöðu skilning. Á sama tíma og hátt nær 50 þúsund manns eru án atvinnu eða í hlutastarfaleið þá eru það vonbrigði að verkalýðshreyfingin sé ekki reiðubúin að koma til móts við fyrirtækin með því að fresta launahækkun og þannig verja störf umbjóðenda sinna.
Skilningi stjórnvalda á stöðunni og aðgerðum þeirra ber að fagna. Um leið er ljóst að frekari aðgerðir þarf til svo fyrirtæki geti unnið úr þeirri erfiðu stöðu sem uppi er. Ráðast þarf í framkvæmdir, létta álögum á fyrirtæki meðal annars með lækkun tryggingagjalds og fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, einfalda regluverk og ryðja hindrunum úr vegi, hvetja enn frekar til nýsköpunar með skattívilnunum, fjölga starfs- og tæknimenntuðum á vinnumarkaði með því að tryggja fleirum skólavist í haust og tryggja námslok og bæta umgjörð byggingarmála til að tryggja hraðari og hagkvæmari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þá þarf að grípa til aðgerða þannig að vaxtalækkanir Seðlabankans skili sér til fyrirtækjanna.
Í þessari miklu kreppu hefur mikilvægi iðnaðar sýnt sig, hérlendis jafnt sem erlendis. Lönd reiða sig í meira mæli á eigin framleiðslu og aukin áhersla er á sjálfbærni. Með því að velja íslenskt og skipta við innlend fyrirtæki verður til keðjuverkun sem nær yfir allt samfélagið. Þannig verjum við störf og stuðlum að uppbyggingu og tryggjum að heimilin, efnahagslífið og samfélagið allt haldist gangandi á meðan landamæri eru lokuð. Þetta tryggir einnig kröftugri viðspyrnu atvinnulífs þegar aðstæður breytast til betri vegar.
Einblínt hefur verið um of á eina atvinnugrein í senn hér á landi, fjármálaþjónustu á fyrsta áratug aldarinnar og ferðaþjónustu á öðrum áratugnum. Eftir það mikla efnahagsáfall sem nú dynur á eiga stjórnvöld að móta atvinnustefnu með það að markmiði að efla samkeppnishæfni Íslands heilt yfir. Þannig hlúum við í senn að þeim iðnaði sem fyrir er og nýjar greinar, ný fyrirtæki og aukin verðmæti verða til með nýsköpun, en nýsköpun á sér stað í öllum greinum. Þannig fjölgar stoðunum í atvinnulífinu og stöðugleiki eykst. Útflutningur þarf að aukast mikið til að halda í við þau lífskjör sem þjóðin hefur búið við. Með réttum aðgerðum og hvötum getur þriðji áratugurinn orðið áratugur nýsköpunar og við á sama tíma byggt undir nýja útflutningsstoð á sviði nýsköpunar, þekkingar og hugvits.