Útlit er fyrir að engin skemmtiferðaskip leggist að á Ísafirði fyrr en í fyrsta lagi í ágúst. Þetta segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði við bb.is.
Í sumar var upphaflega gert ráð fyrir yfir 120 skipum, en búið er að afbóka flestar ferðir í maí og júní og ná þær einnig fram til júlímánaðar. Guðmundur segist ekki eiga von á skipum í júlí úr þessu, og mikil óvissa ríki um komur í ágúst og september.
Tekjur hafnarinnar af skemmtiferðaskipum eru um 140 milljónir á ári, en efnahagsleg áhrif af komu þeirra voru reiknuð 1,2 milljarður árið 2018. Tekjurnar af skemmtiferðaskipunum eru um helmingur tekna hafnarinnar og ef þeirra nyti ekki við þyrfti niðurgreiðslu úr bæjarsjóði til að vega upp tapreksturinn.
Meðaleyðsla farþega í landi árið 2018 var 16.500 krónur. Um 29% þeirrar eyðslu voru í handverk og minjagripi, föt og mat og drykk í landi. Það voru um 4.800 krónur á hvern farþega, eða 500 milljónir eingöngu í verslun og veitingar á Ísafirði yfir sumarið ef eyðslan er heimfærð yfir á alla farþega sem komu til bæjarins með skemmtiferðaskipum.
Samkvæmt minnisblaði sem Guðmundur lagði fyrir hafnarstjórn gerir bjartsýnasta sviðsmyndin ráð fyrir 35% tekjufalli, en sú svartsýnasta gerir ráð fyrir 60% tekjufalli Hafnarsjóðs.