Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að flestir stærstu hluthafar Icelandair Group setji það skilyrði fyrir hugsanlegri aðkomu að hlutafjárútboði félagsins að kjarasamningar náist við flugstéttir félagsins til langs tíma. Talað er um að lágmarki fimm ára samning. Ef það tekst ekki verði ekkert af útboðinu.
Markaðurinn segir að fundir með hluthöfum hefjist í dag og muni stjórnendur og ráðgjafar félagsins kynna tillögur sínar um endurfjármögnun félagsins.
Greinendur Landsbankans telja líklegt að Icelandair Group þurfi að afla 150 til 200 milljóna dollara, sem svarar til 22 til 29 milljarða króna, í nýju fjármagni. Ef það takist geti staða félagsins verið góð fyrir næsta ár.
Lífeyrissjóðir leggja áherslu á að þeir muni aðeins leggja félaginu til fjármagn á viðskiptalegum forsendum. Því verði trúverðug rekstraráætlun að liggja fyrir.