Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, greindi frá því á Twitter um helgina að borgaryfirvöld skyldu skoða möguleikann á því að loka götum miðbæjarins fyrir bílaumferð, svo betur væri hægt að virða tveggja metra regluna hjá gangandi vegfarendum vegna kórónuveirufaraldursins.
Með hækkandi sól hefur fólki fjölgað nokkuð á götum miðbæjarins og hefur reynst erfitt að virða tveggja metra regluna og segist Dagur ætla að taka málið upp við sóttvarnaryfirvöld þar sem kvartanir hafi borist vegna þessa.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins telur slíkar aðgerðir dæmi um misnotkun valds ef að verður:
„Ýmsir hafa lýst áhyggjum af því að undanförnu að stjórnvöld hér og þar í heiminum hyggist nýta kórónuveirufaraldurinn til að auka völd sín og jafnvel knýja fram allt að því einræðisvald.“ /
„En það er ekki aðeins ríkisvaldið sem hætta er á að nýti sér ófremdarástandið. Hér á landi dúkkaði um helgina upp lítið dæmi um það hvernig sveitarfélög geta fallið í sömu gryfju,“
segir höfundur og vísar síðan í tístið hjá borgarstjóra. Látið er í ljós skína að um hræsni sé að ræða hjá Degi, þar sem borgaryfirvöld standi fyrir skipulögðum strætósamgöngum, þar sem erfitt sé að virða 2ja metra regluna:
„Efasemdir hljóta að vakna um hversu trúverðugar þær skýringar eru. Má í því sambandi benda á að borgin hefur haldið úti strætósamgöngum þar sem allt að því útilokað er að halda þessum tveggja metra fjarlægðarmörkum. Þetta kann að vera óhjákvæmilegt eins og svo margt annað því að fólk þarf að komast leiðar sinnar, en það er ekki trúverðugt að vilja á sama tíma, með vísun í smitvarnir, loka götum fyrir umferð einkabíla. Væntanlega er fólk best varið í einkabílum um þessar mundir og nær væri nú að borgaryfirvöld styddu við notkun einkabíla en að leggja stein í götu þeirra,“
segir höfundur og bætir við:
„Hatrið á einkabílnum verður að eiga sér einhver takmörk.“
Leiðarahöfundur telur að ef slík götulokun raungerist, muni það hafa enn verri áhrif á fyrirtækin á svæðinu:
„Að auki er líklegt að áform borgarstjóra verði til að valda fyrirtækjum í borginni enn meira tjóni en orðið er á sama tíma og þörf er á að styðja við atvinnulíf og störf í borginni, eins og Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, benti á í samtali við mbl.is um helgina. Stjórnmálamenn verða að standast þá freistingu að misnota kórónuveirufaraldurinn málstað sínum til framdráttar, hvort sem þar er um að ræða hættulega valdasókn eða sérviskulega baráttu fyrir einhverjum furðumálum.“