Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, tekur undir hugmyndir stjórnvalda í Ástralíu um að skikka netrisa á borð við Facebook og Google til að greiða fréttaveitum fyrir það fréttaefni sem deilt er með miðlum þeirra. Hann segir á Facebook að ellegar kunni blaðamennska að lognast út af:
„Netrisarnir soga til sín megnið að öllum auglýsingatekjum á netinu og græða meðal annars drjúgt á fréttaefni. Fréttaveitur svelta, sérstaklega núna. (Hægri) stjórnin í Ástralíu sér að þetta gengur ekki og vinnur nú að lögum til að skikka risana til að greiða fyrir efnið. Það verður að taka á þessu ef blaðamennska á ekki að lognast útaf. Það væri óvitlaust að færa umræðuna í þennan farveg á Íslandi.“
Kristinn deilir frétt The Guardian um að Facebook hafi lýst yfir vonbrigðum sínum með þessar hugmyndir hægri stjórnarinnar í Ástralíu. En ef af þessu verður er útséð að kostnaður netrisana verði gríðarlegur, en á Spáni var farin svipuð leið sem varð þó til þess að Google dró fréttaveitu sína alfarið til baka og í Frakklandi hefur Google og Facebook þverneitað að borga fyrir slíka notkun.
Fjölmiðlar í Ástralíu berjast nú í bökkum vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, líkt og víðast hvar annarsstaðar.