Áform um uppbyggingu á hafnarsvæðinu við Helguvík eru ágætlega á veg komin, en þau gera ráð fyrir að hægt verði að taka á móti herskipum NATO. Þetta segir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafna við Morgunblaðið í dag. Hann nefnir að hingað til hafi undirbúningsvinnan þó aðeins verið af hálfu hafnaryfirvalda, en sé ekki komið í farveg hjá NATO. Þó hafi aðilar frá NATO kannað aðstæður við höfnina:
„Og í framhaldinu höfum við viljað teikna upp hvernig við gætum þjónustað þessa aðila betur, enda eru fyrir einstakar aðstæður í Helguvíkurhöfn á landsvísu. Þar eru forsendur fyrir legu stórra skipa og langra, ásamt því sem samspilið við flugvöllinn er kjörið. Þarna er því virkilega tækifæri til uppbyggingar.“
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í gær á fundi flokksins í Suðurkjördæmi að samstarfsþjóðir Íslands í NATO hefðu „kallað eftir“ því að ráðist yrði í þetta verkefni, en umfang þess sé um 16.5 milljarðar króna. Taldi hann bæjaryfirvöld ekki nægilega áhugasöm um verkefnið.
Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ og formaður bæjarráðs, hafði einnig heyrt af auknum áhuga NATO á svæðinu, en taldi að umfang verkefnisins yrði þó minna en Ásmundur nefndi, eða um 2-4 milljarðar. Hann sagði þó að bæjaryfirvöld væru áhugasöm um verkefnið, samkvæmt Morgunblaðinu.
Þá segist Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar, að málið hafi ekki borist inn á borð nefndarinnar, en hún hafi einnig heyrt af þessum áhuga.
Þeir Ásmundur og Friðjón, ásamt stjórn Reykjaneshafna, telja að uppbygging á svæðinu yrði mikil lyftistöng fyrir svæðið í efnahagslegu tilliti, en atvinnuleysi mælist þar nú mest á landinu, og er spáð að það fari hækkandi.
Morgunblaðið hefur eftir Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni VG og varaformanni utanríkismálanefndar, að slíkar hugmyndir þurfi að fá ítarlegri og formlegri umræðu áður en nokkuð verði gert, hernaðarleg uppbygging á svæðinu sé alvarlegt mál. Hvetur hún heimamenn til að vera víðsýnni í lausnum sínum um vanda svæðisins og segir hún hugmyndirnar óskhyggju á þessu stigi:
„Þetta hljómar eins og vanþekking á sambandi okkar við Atlantshafsbandalagið, að áætla að bandalagið setji verkefni eins og þetta bara af stað í Helguvík sisvona. Allt sem tengist NATO er bundið aðildarsamningum okkar og breytingar á því þar með eitthvað sem er bundið þinglegum samþykktum en ekki umræðu á Facebook,“
er haft eftir Rósu, sem vísar í umræður á Facebooksíðu Ásmundar Friðrikssonar:
„Mér finnst því sérstakt að kjörnir fulltrúar á Suðurnesjum séu að leita til NATO vegna uppbyggingar á innviðum. Eins og við vitum eru uppbygging og viðhald á vegum Atlantshafsbandalagsins þegar umdeild mál, þannig að ef við værum að fara í hernaðartengda uppbyggingu á hafnarsvæðum væri það eitthvað sem þyrfti mun ítarlegri umræðu við, enda um þjóðaröryggismál að ræða,“
segir Rósa en sem kunnugt er þá er VG alfarið á móti öllu hernaði og veru Íslands í NATO, þó svo flokkurinn styðji nú NATO samstarfið meðan hann er í ríkisstjórn. Ljóst er því að VG er í vanda ef hernaðaruppbygging leynist lausnin við efnahagsvandamálum á Suðurnesjum, erfitt gæti verið að mótmæla þeim uppgangi sem það gæti haft fyrir svæðið.