Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, vill að lúxusíbúðir sem standa tómar í Reykjavík verði nýttar til að koma þaki yfir þá sem mest þurfa á húsnæði að halda. Því þurfi Reykjavíkurborg að taka yfir eignarhald þeirra á hagstæðu verði. Hún vill einnig að tóm hótel verði notuð undir hjúkrunarrými og námsmannaíbúðir. Hún hyggst leggja tillögu sína fram á fundi borgarstjórnar á morgun:
„Aðilarnir sem standa að baki umræddum íbúðum hafa átt í erfiðleikum með að selja þær og miðað við efnahagsástandið sem nú blasir við okkur er ekki fyrirséð að íbúðirnar verði eftirsóttar á því verði sem þær eru á. Því er lagt til að Reykjavíkurborg leitist við að taka yfir íbúðirnar og gera þær aðgengilegar fyrir þá hópa samfélagsins sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði,“
segir Sanna.
Hún vill einnig að þau hótel sem standi tóm vegna Covid-19 og munu standa tóm næstu mánuði og jafnvel ár, verði nýtt fyrir hjúkrunarrými og námsmannaíbúðir:
„Þá er einnig lagt til að Reykjavíkurborg skoði sama fyrirkomulag með stór hótel borgarinnar sem eru nú í byggingu og útfæri rýmin t.d. í námsmannagarða og hjúkrunarrými. Fjármála- og áhættustýringasviði verði falið að leita til þeirra sem hafa komið að fjármögnun og uppbyggingu ummræddra íbúða og eiga í viðræðum við þá fyrir hönd borgarinnar. Reykjavíkurborg samþykkir síðan að vinna með hagsmunaaðilum líkt og verkalýðshreyfingunni, Félagsbústöðum, Öryrkjabandalagi Íslands og Félagsstofnun stúdenta og samtökum eldri borgara um nýtingu íbúðanna.“
Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist á Twitter vera í sjokki yfir orðalaginu í tillögum Sönnu. Hún telur það ruglað hugarfar að hið opinbera taki yfir eignir fólks:
„Lýsir bara (að mínu mati rugluðu) hugarfari að tala um að hið opinbera „taki yfir eignarhald“ á eignum fólks.“
Sósíalistar eru með tillögu í borgarstjórn á morgun um „að taka yfir eignarhaldið á þeim íbúðum á hagstæðu verði“ og ég er í sjokki yfir orðalaginu.
(Átt er við óseldar „lúxusíbúðir“ í Reykjavík)
— Katrín Atladóttir (@katrinat) April 20, 2020