Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, fer nokkuð hörðum orðum um ummæli sem höfð voru eftir verkalýðsforingjum í útvarpsþættinum Speglinum á RÚV síðastliðinn föstudag, í leiðara blaðsins í dag. Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar vöruðu þar við því að ef ríkisstjórnin stæði ekki við sinn hlut í lífskjarasamningunum sem undirritaðir voru í fyrra yrði látið sverfa til stáls. Jón bendir á að lífskjarasamningarnir voru gerðir við allt aðrar aðstæður en nú eru uppi.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir þremur dögum að lífskjarasamningnum yrði sagt upp ef stjórnvöld stæðu ekki við fyrirheit í húsnæðismálum:
„Þetta eru svo stór atriði að við getum ekki litið fram hjá þeim. Við erum að fara inn í maí og það stefnir í að ríkisstjórnin ætli ekki að afgreiða frumvörp um fyrstu kaupa lánin á íbúðum, um leiguverndina og bann við 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum. Frumvörpin eru tilbúin. Það tók eitt og hálft ár að vinna þau. Þessi mál hafa ekki einu sinni verið lögð fram á þingi. Þau voru hluti af lífskjarasamningnum og ef þau verða ekki afgreidd er samningurinn fallinn af okkar hálfu,“ sagði Ragnar Þór.
Í leiðara sínum bendir Jón á að framundan sé mikið fjárflæði úr ríkissjóði einmitt til handa launafólki:
„Ríkissjóður er í þeim svifum að axla hundruð milljarða skuldbindingar til verndar afkomuöryggi fólks, ekki aðeins í ferðaþjónustu heldur nær öllum atvinnugreinum. Brúarlán og hlutabætur eru dæmi um það. Ekki er ósennilegt að úr ríkissjóði muni streyma 60 milljarðar í atvinnuleysis- og hlutabætur á þessu ári og kannski meira.
Þær bætur ganga beint til fólksins sem fyrir örfáum vikum var launamenn en hefur þurft að sæta skerðingu á starfshlutfalli eða misst vinnu sína.
Það er því í besta falli afvegaleiðandi að tala um að „skilja launafólk eftir“ við þessar aðstæður. Í samanburði við þær skuldbindingar sem ríkið tókst á hendur
með lífskjarasamningum er fjárstraumurinn úr ríkissjóði fram undan í þessu skyni, risavaxinn.“
Jón segir enn fremur: „Ríkissjóður er heldur ekki óþrjótandi né ótæmandi auðlind. Allir vita að fjárins er aflað með skattlagningu á fólk og fyrirtæki. Og allir ættu að sjá að nú þegar
allar gáttir eru opnaðar, hefur innstreymi skatttekna ríkisins nær horfið.“ Hann gefur jafnframt í skyn að ekki sé heil brú í því að efna til átaka á vinnumarkaði eins og aðstæður eru nú. Allir þurfi að taka á sig áföll í ríkjandi ástandi:
„Allir verða fyrir búsifjum á þessum tímum og allir munu þurfa að axla sínar byrðar. Tal um svik í þessu sambandi er sem falskur tónn og erfitt að trúa því að það sé meining í þeim hótunum að segja upp samningum og kveikja ófriðarbál á vinnumarkaði.
Orð hafa ábyrgð og vinsældakeppni og kappi um upphrópanir þarf að slá á frest.“