Útlit er fyrir að tjón íslensku ferðaþjónustunnar af COVID-19 faraldrinum geti numið allt að 330 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem KPMG gerði fyrir Ferðamálastofu. Gæti það tekið ferðaþjónustuna allt að tvö ár að rétta úr kútnum.
Í skýrslunni kemur fram að staða ferðaþjónustunnar hafi verið orðin nokkuð slæm áður en faraldurinn skall á. Skuldir höfðu aukist mikið umfram tekjur og því greinin illa í stakk búin fyrir það áfall sem COVID-19 faraldurinn hefur reynst. Skýrslan gerir ráð fyrir 69% prósent samdrætti í komu ferðamanna, samkvæmt svartsýnustu spá, en nú þegar lítur út fyrir að þetta verði veruleikinn, og eins er gert ráð fyrir allt að 330 milljarða lækkun gjaldeyristekna.
„Hún verður fyrirsjáanlega í alllangan tíma að ná sér. Það má gera ráð fyrir að það taki 12 mánuði og jafnvel 24 mánuði, sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri í samtali við RÚV.
17.000 manns úr ferðaþjónustu bættust á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun í mars og er viðbúið að þeim fjölgi frekar. Einhver fyrirtæki hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina. „Það er ekki nægjanlegt ef það á að halda öllum þeim fyrirtækjum sem eru í greininni á floti. Alveg klárlega,“ segir Skarphéðinn og bætir við að það sé fyrirséð að einhver fyrirtæki hafi það ekki af.
„Ferðaþjónustan mun ná sér. Hún mun ná sér á strik. Það er spurning hversu langan tíma það tekur og hvernig hún lítur út þegar að því kemur“ segir Skarphéðinn.
Þordís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunar-,iðnaðar- og ferðamálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu RÚV í kvöld að staðan væri grafalvarleg.
„Þetta er auðvitað allt annað útlit og allt önnur sýn en við héldum að þetta yrði fyrir mánuði síðan þannig staðan er grafalvarleg“
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar verða kynntar á næstunni en Þórdís gat ekkert sagt um efni þeirra.