Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gat ekki leynt reiði sinni í ræðustól Alþingis í fyrradag vegna málshöfðunar sjö útgerðarfélaga gegn ríkinu upp á samtals 10.2 milljarða króna vegna makrílkvóta.
Katrín setti málið í samhengi við þá samheldni sem myndast hefði vegna kórónuveirufaraldursins og sagði bæði fólk og fyrirtæki hafa sýnt ábyrgð:
„En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða vegna makrílúthlutunar.“
Síðan hafa fimm fyrirtæki hætt við málshöfðunina, en Huginn hyggst halda málinu til streitu og krefjast rúmlega 800 milljóna króna í bætur. Vinnslustöðin er með kröfu upp á tæpan milljarð, en var ekki meðal þeirra sem drógu málshöfðunina til baka í gær.
Segist framkvæmdastjórinn hafa komið af fjöllum þegar tilkynnt var að fimm félög hefðu hætt við í gær, en sagði að farið yrði yfir málið hjá Vinnslustöðinni í dag og því ekki útilokað að Vinnslustöðin falli einnig frá málinu.
Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, stjórnarformanns Ísfélags Vestmannaeyja, að gagnrýnin á Alþingi hafi ekki verið ástæðan fyrir því að Ísfélagið hætti við málshöfðunina. Sú ákvörðun hafi verið tekin áður af Guðbjörgu Matthíasdóttur, aðaleiganda félagsins og einum helsta eiganda Árvakurs, sem gefur út Morgunblaðið:
„Hún (gagnrýnin) hafði engin áhrif því að Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélagsins, var áður búin að beina þeirri ósk til stjórnar félagsins að hætta við þessa málshöfðun og stjórnin samþykkti það í [fyrradag],“
er haft eftir Gunnlaugi í Morgunblaðinu og nefnir hann að ákvörðunin hafi einnig verið tilkynnt til eins ráðherra ríkisstjórnarinnar í fyrradag og Ísfélagið hafi boðið hinum útgerðunum að vera með í för.
Það virðist þó ekki hafa náð yfir Vinnslustöðina, ef marka má viðbrögð framkvæmdastjórans þar sem RÚV greindi frá í gær.
Sjá einnig: Hart deilt um skaðabótakröfur útgerðarfyrirtækja – UPPFÆRT:FYRIRTÆKI HÆTTA VIÐ