Menning og listir munu fá rúmar 500 milljónir til að bregðast við efnahagsáhrifum Covid-19 faraldursins og verður styrkjum úthlutað strax í næsta mánuði. Þetta kemur fram hjá Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra í grein í Morgunblaðinu í dag. Á það að nægja til að brúa bilið þangað til að samfélagið tekur við sér á ný:
„Vegna mikilvægis menningar hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita strax viðspyrnu og verður yfir hálfum milljarði í fyrsta aðgerðapakkanum varið til menningar, lista og skapandi greina. Þessu fjármagni er ætlað að brúa bilið fyrir listafólkið okkar þar til hjól samfélags og atvinnulífs fara að snúast á nýjan leik.“
Mun hluti fjármagnsins fara til mikilvægra verkefna er snúa að menningarminjum og til að gera „menningararf okkar aðgengilegri“ að sögn Lilju.
Hún segir afrakstur slíkrar fjárfestingar óumdeildan:
„Menning og listir eru auðlind sem skilar efnahagslegum gæðum til samfélagsins í formi atvinnu, framleiðslu á vöru og þjónustu til neyslu innanlands og útflutnings. Við þurfum ekki annað en að horfa til þeirra landa sem fremst eru, þar sem rannsóknir sýna að skapandi atvinnugreinar eru ekki einungis hratt vaxandi burðargreinar, heldur eru þær sveigjanlegri, vaxa hraðar en aðrar atvinnugreinar, skapa aukið virði innan annarra atvinnugreina og eru oft nátengdar því sem helst virðist horfa til framtíðar. Þessi lönd hafa með ýmsum hætti reynt að greiða leið frumkvöðla og fyrirtækja á sviði skapandi greina með hvetjandi aðgerðum. Nú er rétti tíminn til að sækja fram. Menningin verður efld og við reiðum okkur á skapandi greinar til framtíðar. Ljóst er að þar er einn okkar mesti auður og viljum við rækta hann áfram.“
Þess má geta að í gær lagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, til að listamannalaun næðu til 3500 manns í stað um 330 og upphæðin að sama skapi myndi tífaldast, úr um 650 milljónum í 6.5 milljarð.
Sjá nánar: Ágúst Ólafur vill tífalda listamannalaun – „Slíkt myndi kosta um 6,5 milljarða“
Sjá nánar: Brynjar telur Ágúst Ólaf skorta tengingu við raunveruleikann