Samkvæmt svari Matvælastofnunar við fyrirspurn Eyjunnar hafa borist kvartanir/ábendingar frá Lyfjastofnun, lyfsölufyrirtæki og Neytendastofu, ásamt einstaklingum, vegna nýrrar vöru frá Lýsi er heitir Fríar fitusýrur og þorskalýsi, þar sem fullyrðingar um ágæti vörunnar eru ekki sagðar standast skoðun.
Hefur Matvælastofnun sent erindi til Lýsis hf. þar sem auglýsingarefnið var talið brot á reglugerð um miðlun upplýsinga til neytenda, og reglugerð um næringar og heilsufullyrðingar vegna matvæla. Brást Lýsi við með því að fjarlægja auglýsingarnar:
„Matvælastofnun hefur haft samband við Lýsi hf. og komið á framfæri athugasemdum okkar við kynningarefni með þessari vöru. Þar kemur fram að Matvælastofnun telji auglýsingarnar/kynningarefnið vera brot á m.a. reglugerð um miðlun upplýsinga til neytenda (merkingareglugerð), reglugerð um næringar og heilsufullyrðingar vegna matvæla (þ.m.t. fæðubótarefna) og reglugerð um fæðubótarefni. Bréf var sent til fyrirtækisins með þessum athugasemdum og því hefur þegar verið svarað. Fyrirtækið hefur sagst muni hætta þessari kynningu á vörunni. Auglýsingar á heimasíðu Lýsis hafa verið fjarlægðar og fyrirtækið mun koma þessu á framfæri við þá aðila sem selja vöruna,“
segir í svari Matvælastofnunar.
Þess má geta að á Facebooksíðu Lýsis frá 2. apríl er ennþá auglýsing þar sem vísað er til umfjöllunar Eyjunnar um vöruna, sem byggð er á umfjöllun Morgunblaðsins. Í frétt Morgunblaðsins var fullyrt að fríar fitusýrur dræpu kórónuveirur og gæti því nýst í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn, þar sem inntaka lýsisins gæti dregið úr smithættu.
Samkvæmt Árna Geir Jónssyni, sölustjóra hjá Lýsi, er nú passað sérstaklega upp á að varan sé ekki kynnt sem lækning gegn kórónuveirunni.
„Þetta er ekki kynnt sem lækning af okkar hálfu. Við viljum alls ekki gera það. Við segjum aðeins að þetta sé möguleiki á að óvirkja veiruna,“
sagði Árni við Eyjuna. Hann sagðist ekki hafa fengið kvartanir frá fólki yfir kynningu vörunnar, en nefndi að eðlilegt væri að fólk velti slíkum hlutum fyrir sér. Það eina sem sýnt hafi verið fram á með rannsóknum, sé að fríar fitusýrur óvirki hjúpaðar veirur, en kórónuveiran er einmitt slík veira, en engar klínískar rannsóknir hafa enn verið gerðar á efninu, þó frekari rannsóknir standi til.
Árni vildi ekki svara því hvort það hefði verið ábyrgt af hálfu Lýsis að markaðssetja vöruna í miðjum kórónuveirufaraldri með slíkum hætti, en gekkst við því að Lýsi bæri ábyrgð á vörunni sem framleiðandi:
„Það er eðlilegt að fólk setji spurningamerki við svona, en við viljum ekki halda því fram að þetta sé lækning. Alls ekki,“
segir Árni.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði við Eyjuna að í kjölfar kórónuveirunnar hafi orðið aukning í tilkynningum er varðar vörur sem eigi að sporna gegn, eða jafnvel lækna, kórónuveiruna eða Covid-19 sjúkdóminn. Hinsvegar séu slíkar fullyrðingar ekki á rökum reistar, enda engin lækning ennþá til við kórónuveirunni:
„Já það hefur borið svolítið á þessu, þar sem fullyrt er vörurnar hafi hamlandi áhrif á kórónuveiruna, án þess að vísindalegar sannanir lægju fyrir.“
Breki sagði að meðal þeirra vara sem kvartað hefði verið yfir til Neytendasamtakanna væri Fríar fitusýrur og þorskalýsi. Varan er framleidd af Lýsi hf í samstarfi við Lipid Pharmaceuticals.
Í frétt Morgunblaðsins um vöruna var hún sögð draga úr smithættu og eyðileggja veirur með fituhjúp, en kórónuveiran er einmitt af þeirri tegund.
Breki sagði að almennt yrði að fara varlega í fullyrðingar varðandi heilsuvörur í þeim faraldri sem nú geysti, vitað væri að fólk erlendis hefði freistast til að drekka klór og tréspíra í kjölfar kolrangra fullyrðinga um meintan lækningarmátt slíkra efna á netinu. Hefði fólkið goldið fyrir með lífi sínu. Þess má geta að Matvælastofnun hefur varað við kynningum á vörum þar sem fullyrt er um að hinar og þessar vörur eigi að styrkja ónæmiskerfi líkamans og eða eigi að koma í veg fyrir sýkingar, til dæmis af völdum kórónuveirunnar.