Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er einn þeirra sem sögðu sig úr miðstjórn ASÍ á dögunum, þar sem ekki var grundvöllur fyrir því að fara lífeyrisleiðina svokölluðu, né að fresta launahækkunum samkvæmt kjarasamningum, til að bregðast við efnahagsáhrifum Covid-19.
Ragnar skýtur föstum skotum í átt að ASÍ og öðrum í dag, en Drífa Snædal er forseti ASÍ:
„Niðurstaðan varð að þessari hugmynd var alfarið hafnað innan veggja ASÍ og fékk ekki frekari umræðu. Ekki frekar en frestun á launahækkunum sem gjarnan gleymist að lagt var fram líka og varðhundar réttinda launafólks gleyma gjarnan að nefna að hafi verið til umræðu líka. Nú kemur fram hver lukkuriddarinn á fætur öðrum og segir kjarasamninga heilaga og frekar verði ekki gengið á réttindi launafólks, en nú sé tími samstöðu. Einhverjir sem stigið hafa fram eru ábyrgðamenn á svikunum við launafólk og heimilin eftir hrun,“
segir Ragnar, en Drífa er fyrrverandi framkvæmdastjóri VG árunum í kringum hrunið og var áður varaþingmaður. Hún sagði sig úr VG árið 2017.
Ragnar kallar suma þeirra sem stigið hafi fram svikara:
„Einhverjir sem stigið hafa fram eru ábyrgðamenn á svikunum við launafólk og heimilin eftir hrun. Bera ábyrgð á því að launahækkunum var frestað eftir hrun og verðbólgunni var sleppt lausri á heimilin með skelfilegum afleiðingum sem fólk er ann að takast á við í dag. Kaupmáttarrýrnunin varð í framhaldinu 15%. Þessir svikarar við launafólk lýðskruma nú úr sér raddböndin af réttlætiskennd gegn hugmyndum sem snúa fyrst og síðast um að verja heimilin, störfin og kaupmáttinn. Nákvæmlega því sem fórnað var í hruninu.“
Ragnar spyr hvort verkalýðshreyfingin ætli að gera sömu mistök og í hruninu:
„Vonandi muna flestir þá skelfingar sögu sem dundi svo á heimilum landsins á meðan verkalýðshreyfingin stóð á hliðarlínunni, og horfði á, eftir að hafa komið í veg fyrir frystingu vísitölu verðtryggðra lána. Það má ætla að ný forysta hafi einmitt komist til valda á þeim forsendum. Þá er spurning hvort hreyfingin sé að endurtaka leikinn?“