„Icelandair er ekki að verða gjaldþrota. En eins og önnur flugfélög eru að glíma við þá er algjör tekjubrestur í flugi og ferðaþjónustu í heiminum og við þurfum að bregðast við því. Þetta verkefni sem við erum að fara í núna snýst ekki bara um að koma okkur í gegnum ástandið heldur líka ætlum við að vera í sterkri stöðu þegar markaðir fara að opnast aftur, bæði hvað efnahagsreikninginn varðar og reksturinn líka,“
segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair við RÚV í dag, en flugfélagið er í miklu andstreymi um þessar mundir þar sem mest allt flug liggur niðri vegna Covid-19. Þegar hefur 230 starfsmönnum verið sagt upp og 92% starfsmanna verða í skertu starfshlutfalli tímabundið.
Félagið sendi út tilkynningu í dag þar sem fram kemur að félagið leiti að fjárfestum í samvinnu við ríkið og þrjá viðskiptabanka, og að lausafjárstaðan muni fara undir viðmið fyrir apríl og maí, sem er 29 milljarðar króna.
Bogi Nils segir mikla óvissu framundan en ekki sé gert fyrir frekari uppsögnum sem stendur:
„Ástandið hjá okkur breytist á hverjum degi og óvissan er mikil. Það liggja ekki fyrir neinar uppsagnir á þessu stigi, en það er alveg ljóst að við þurfum að halda áfram að taka erfiðar ákvarðanir í okkar rekstri til að bregðast við ástandinu.“
Ríkið greiddi 100 milljónir til félagsins til að halda uppi flugsamgöngum við landið vegna ástandsins, en það samkomulag var til þriggja vikna. Bogi segir það ekki liggja fyrir hvort það samkomulag verði framlengt, en það rennur út 15. apríl. Í tilkynningu félagsins í morgun sagði að unnið væri náið með stjórnvöldum í ferlinu.
Bogi segir það ekki þýða að félagið hyggist þiggja beinan fjárstuðning frá ríkinu:
„Nei það þýðir það ekki. Samskiptin við stjórnvöld hafa verið mikil og góð síðan þetta ástand hófst og við munum halda því áfram. Þetta snýst um samstarf og samskipti.“