Verulegur samdráttur var í kortaveltu í marsmánuði sem rekja má til áhrifa Covid-19 faraldursins, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Erlend kortavelta dróst jafnt og þétt saman allan marsmánuð og var í lok mánaðar um 5% þess sem hún var í upphafi hans. Þróun erlendrar kortaveltu varpar ljósi á stöðu og þróun einkennandi greina ferðaþjónustu, en ferðaþjónustufyrirtæki berjast nú mörg í bökkum, þar sem í síðustu viku var talið að aðeins um 100-500 erlendir ferðamenn væru hér á landi.
Kortavelta á innlendum kortum dróst einnig jafnt og þétt saman þegar leið á marsmánuð, ef frá eru taldir dagar þar sem tilkynntar voru breyttar reglur tengdar Covid-19 faraldrinum. Eftir að samkomubann var komið á breyttist kortavelta og dróst almennt saman, samkvæmt Hagstofu Íslands, dagana 1. -28.mars.
Þróun kortaveltu í dagvöruverslun varpar ágætu ljósi á kauphegðun heimila í mars, en veltan fer vaxandi alla vikuna og er mest á föstudögum. Veltan dregst verulega saman á sunnudögum og fer svo aftur vaxandi út vikuna. Veruleg aukning var í kortaveltu þegar tilkynnt var um breyttar reglur um samkomubann 13. mars, en þann dag var nær tvöfalt meiri velta en á meðaldegi. Eftir að samkomubanni var komið á breyttist kortavelta í dagvöru lítið.