Eftir uppsagnir sálfræðinga hjá SÁÁ, er engin sértæk þjónusta lengur í boði fyrir börn alkóhólista og vímuefnaneytenda, segir Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í Reykjavík í aðsendri grein á Vísi.
Hún segir að áður en til uppsagna hafi komið, hafi þegar verið kominn biðlisti eftir þjónustunni fyrir þennan hóp barna:
„Reykjavíkurborg hefur styrkt SÁÁ um 19 m.kr. á ári. Hluti af þeim styrk var varið í þjónustu barna áfengis- og vímuefnaneytenda. Þar sem sú þjónusta er ekki lengur í boði og óvíst hvort og þá hvenær hún kemst á aftur hjá SÁÁ verður Reykjavíkurborg að axla þessa ábyrgð,“
segir Kolbrún og nefnir að þessum börnum hafi vissulega verið sinnt af velferðaryfirvöldum, en hún leggur til að Reykjavíkurborg stofni sérstakt úrræði í anda þess sem rekið var af SÁÁ. Hyggst Kolbrún leggja fram tillögu þess efnis í borgarstjórn að nýju, en Kolbrún lagði slíka tillögu einnig fram í nóvember 2019, en tillögunni var þá vísað frá.
„Úrræði af þessu tagi þarf að standa öllum börnum alkóhólista og vímuefnaneytenda til boða án tillits til hvort barn búi hjá foreldrinu sem glímir við sjúkdóminn eða hefur umgengni við það, einnig án tillits til hvort þau eru sjálf metin í áhættuhópi eða ekki. Ekki ætti að vera þörf á tilvísun. Stuðningsþjónustunni yrði jafnframt ætlað að styðja við foreldrana með ráðgjöf og fræðslu eftir atvikum.“
Kolbrún segir í greininni að börn alkóhólista og vímuefnaneytenda séu ekki ofarlega í þjóðfélagsumræðunni:
„Börn alkóhólista og vímuefnaneytenda er hópur barna sem hvorki heyrist hátt í né mikið er rætt um. Þetta er oft falinn hópur. Mörg barnanna búa við aðstæður óöryggis, óvissu, ófyrirsjáanleika, ótta. Mikið og langvarandi álag og ábyrgð er oft langt umfram það sem aldur og þroski leyfir. Afleiðingarnar fyrir þennan hóp barna geta verið meðvirkni, sárar tilfinningar, brostnar vonir og sködduð sjálfsmynd. Enda þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar í málaflokknum undanfarinn áratug ríkir enn þöggun og fordómar um alkóhólisma og neyslu vímuefna foreldris. Börn sem búa við vandann og eru hluti hans halda honum oft leyndum, vilja ekki tala um hann og vilja afneita honum.“
Áfengissala hefur aukist nokkuð eftir að áhrif kórónuveirunnar fór að gæta hér á landi. Nokkur umræða hefur einnig skapast um áfengisfrumvarp dómsmálaráðherra, sem gerir fólki kleyft að panta áfengi innanlands og fá sent heim að dyrum.
Af því tilefni varaði framkvæmdastjóri Barnaheilla, Erla Reynisdóttir, við því að aðgengi fólks að áfengi yrði aukið, þar sem rannsóknir sýndu að aukin áfengisneysla foreldra hefði neikvæð áhrif á börn:
„Ef einhvern tímann er EKKI þörf fyrir aukna hættu á heimilisofbeldi, aukna hættu á ofbeldi gegn börnum, aukna hættu á að börn búi við vanrækslu, hættu á auknum kvíða barna og andlegum áföllum, þá er það núna,“
sagði Erla í opnu bréfi til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra.