„Því miður virðast teikn á lofti um að við munum eiga í átökum við veiruna í marga mánuði í viðbót,“ segir Jón Ívar Einarsson, læknir og prófessor við læknadeild Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, sem telur að um eitt ár að minnsta kosti, gæti tekið að ráða niðurlögum kórónuveirufaraldursins.
Afleiðingarnar verði hins vegar alltaf miklar, jafnvel þó svo skynsamlegasta leiðin sé farin. Þetta segir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, hvar hann nefnir að til þess að hjarðónæmi myndist þurfi um 60% þýðisins að sýkjast af veirunni, en hægt sé að halda þeirri tölu lægri með handþvotti og slíkum þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið hér á landi:
„Með þessum aðgerðum þurfa í besta falli 97.000 (27%) og í versta falli 216.000 (60%) Íslendingar að sýkjast til að hjarðónæmi myndist. Á covid.is eru staðfest smit rúmlega 1.200 þegar þetta er skrifað og á milli 40 og 100 manns sýkjast daglega. Það er ljóst að þetta er vanáætlað þar sem einhverjir sýktir greinast ekki. Ef við gerum ráð fyrir því og gefum okkur að 300 sýkist á hverjum degi (ágiskun) þá tekur tæplega eitt ár að mynda hjarðónæmi á Íslandi ef við miðum við að 100.000 sýkta þurfi til þess,“
segir Jón Ívar.
Jón segir að þrjár leiðir séu færar til að klára faraldurinn:
a) Allar þjóðir ná að bæla niður veiruna á sama tíma eins og gerðist í SARS-faraldrinum 2003. Mjög ólíklegt er að þetta takist m.t.t. útbreiðslu og smithættu.
b) Leyfa veirunni að ganga í gegn óáreittri og mynda þar með hjarðónæmi á sem stystum tíma. Þetta er ekki góð leið þar sem heilbrigðiskerfi munu ekki geta ráðið við ástandið og fleiri munu deyja en ella.
c) Reyna að hemja útbreiðslu veirunnar þannig að tiltölulega fáir séu sýktir í einu, t.d. með útgöngubanni, smitrakningu o.s.frv. Þetta er sennilega besta leiðin. Hins vegar fylgja þessari leið ókostir, t.d. getur tíðni smita blossað upp aftur eins og gerðist í spænsku veikinni 1918 sem gekk yfir í þremur bylgjum.
Jón segir að síðastnefnda leiðin sé farin hér á landi og hafi reynst vel, en fórnarkostnaðurinn sé mikill:
„Það er þó ljóst að þessar aðgerðir hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir samfélagið og efnahag þjóðarinnar og miklir hagsmunir í húfi, sérstaklega ef þetta varir lengi.“
Jón Ívar ítrekar mikilvægi þess að skoða hnitmiðaðar þjóðfélagslegar takmarkanir sem taka tillit til áhættuþátta og mikilvægast sé að vernda þá sem eldri eru en 60 ára og eða með undirliggjandi sjúkdóma:
„Þetta er þegar gert nokkuð vel hér á landi, en gera mætti enn betur, til dæmis með því að nota ávallt maska í návist þessara einstaklinga og gæta ýtrustu sóttvarna. Við erum þegar með aldurstengdar aðgerðir að hluta hjá yngri hópum þar sem grunnskólar eru opnir, en e.t.v. mætti á réttum tímapunkti minnka takmarkanir hjá ungu og hraustu fólki fyrst, til að halda samfélaginu enn frekar gangandi, enda er þetta ekki hópurinn (sérstaklega fólk yngra en 40 ára) sem er að lenda inni á gjörgæslu nema í undantekningartilfellum. Að sjálfsögðu ætti að halda áfram lágmarksaðgerðum hjá öllum eins og handþvotti o.s.frv. Þannig væri hægt að vernda áhættuhópa, lágmarka samfélagslegan skaða og jafnframt tryggja að heilbrigðiskerfið haldi velli.“