„Æskilegt væri að kalla strax saman lykil haghafa í kerfinu, einhverskonar „Geðráð“, og bæta við þá geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem þegar er í gildi. Móta þarf aðgerðir og laga fjárveitingar að ástandinu og hvernig það er líklegast til að þróast til skemmri og lengri tíma. Tryggja þarf að í slíkri vinnu verði fulltrúar notenda hafðir með í ráðum,“
segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir að staða geðheilbrigðismála hafi verið ábótavant áður en Covid-19 lét á sér kræla, og nefnir að aðeins 11% af heildarútgjöldum ríkisins til heilbrigðismála hafi runnið til geðheilbrigðismála.
„Afleiðingar af ofangreindu sjást m.a. í tölum Tryggingastofnunar um örorku en samkvæmt þeim voru örorkulífeyrisþegar af völdum geðraskana árið 1990 samtals 2.522 eða 30% af heildarfjölda örorkulífeyrisþega. Nú þrjátíu árum síðar eru þeir 7.262 eða 37% af heildarfjölda. Þá eru þeir 2.063 sem eru á endurhæfingarlífeyri ekki taldir með en stór hluti þeirra er vegna geðraskanna. Þetta er aukning um 188% á þrjátíu árum. Landsmönnum hefur á sama tímabili fjölgað um 43%,“
segir Grímur og nefnir að 11% drengja undir 18 ára aldri á Íslandi séu með einhverja greiningu, og 5,5% stúlkna, sem sé 100% meira en í Noregi.
Grímur nefnir að staðan skáni síst í slíku ástandi sem kórónuveiran hafi skapað:
„Kvíði, einmanaleiki og ótti er eitthvað sem æ fleiri tengja við á þessum tímum en viðkvæmustu hóparnir eru í sérstaklega erfiðri stöðu. Það er mat Geðhjálpar að þetta ástand eigi aðeins eftir að versna eftir því sem samkomubann og lokanir úrræða og þjónustu vara lengur og efnahagslegir erfiðleikar sem óumdeilanlega munu fylgja taka við,“
segir Grímur og telur að bregðast þurfi hratt við til að koma í veg fyrir vandamálin síðar meir:
„Það er á tímum sem þessum sem ríður á að gera allt sem hægt er svo afleiðingar þeirrar væntanlegu geðheilbrigðisáskorunar, sem þessi faraldur getur orðið, valdi ekki samfélagslegum erfiðleikum langt inn í framtíðina. Lönd um allan heim eru að beina aukinni athygli að geðheilbrigði, ekki aðeins viðkvæmra hópa heldur alls almennings. Yfirvöld víða eru þannig farin að bregðast við ástandinu ásamt því að leggja á ráðin um hvernig taka eigi á mögulegri aukningu í eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu er faraldurinn rénar. Íslensk stjórnvöld þurfa að slást í þennan hóp og bregðast við án tafar.“