Sem kunnugt er sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra í færslu á Twitter á dögunum að ef einhvern tímann væri þörf á netverslun með áfengi, væri það núna, en Áslaug er fyrsti flutningsmaður frumvarps sem gerir netverslun með áfengi innanlands löglega.
Fékk Áslaug nokkra gagnrýni fyrir tístið sitt, ekki síst frá þeim sem vilja takmarka, frekar en að auka, aðgengi almennings að áfengi.
Framkvæmdastjóri Barnaheilla, Erla Reynisdóttir, skrifar opið bréf til Áslaugar Örnu á Vísi í dag.
Þar segir hún:
„Ef einhvern tímann er EKKI þörf fyrir aukna hættu á heimilisofbeldi, aukna hættu á ofbeldi gegn börnum, aukna hættu á að börn búi við vanrækslu, hættu á auknum kvíða barna og andlegum áföllum, þá er það núna.“
Hún segir Barnaheill hafa áhyggjur af aðgengi barna og ungmenna að áfengi, en ekki síst aðgangi foreldra, þar sem reynslan sýni að aukin áfengisneysla foreldra hafi neikvæð áhrif á börn:
„Áfengisneysla slævir huga og dómgreind fólks. Áfengisneysla þeirra foreldra sem nú þegar stunda hana stjórnlaust færist meira inn á heimilin sökum samkomubanns. Það ástand eykur álag á börn umtalsvert og kvíði þeirra eykst við að sjá foreldra sína í annarlegu ástandi. Með þessu er ekki verið að segja að enginn geti haft áfengi um hönd. En áfengi á ekki að hafa um hönd í kringum og innan um börn.“
„Barnaheill skora á þig að bæta ekki á vanda barna sem búa við óöruggar uppeldisaðstæður með því að auka aðgengi enn frekar að áfengi en nú er orðið. Börn geta ekki valið sér heimilisaðstæður og það búa ekki öll börn við heimilisfrið. Börn eiga hins vegar rétt á vernd gegn ofbeldi og vanrækslu, án mismununar. Stjórnvöld þurfa því að tryggja sérstaklega vernd barna í óviðunandi aðstæðum gegn aukinni áfengisneyslu, vegna hinna neikvæðu afleiðinga sem af henni hljótast,“
segir Erla og nefnir að ef einhvern tímann sé þörf á að standa með börnum, sé það núna.
Ekki kemur fram í bréfi Erlu hvort hún hafi skorað á barnamálaráðherra Íslands, Ásmund Einar Daðason, til að berjast gegn frumvarpi Áslaugar, en miðað við þær rannsóknir sem Erla vísar til, væri það einmitt í hans verkahring.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í gær ekki skilja lætin í kringum frumvarp Áslaugar, það snerist um jafnræði:
„Málið snýst um jafnræði þannig að þeir sem hafa íslenska kennitölu og reka netverslun sem endar á .is geti selt okkur áfengi í gegnum netið eins og þeir sem eru með netverslun sem endar .com.“
Brynjar á við að lengi hefur verið heimilt að versla áfengi á netinu frá útlöndum, en ekki hér innanlands og því þurfi að gæta jafnræðis við íslenska framleiðendur.
Sjá nánar: Brynjar styður áfengisfrumvarp Áslaugar og skilur ekki þessi læti