„Kínversk stjórnvöld hafa verið dugleg upp á síðkastið við að hrósa sjálfum sér fyrir fumlaus og örugg viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum. Er þá jafnan bent á stöðuna í hinum vestrænu lýðræðisríkjum, nú þegar faraldurinn er þar á byrjunarstigi, en á sama tíma er forðast að nefna viðbrögðin í Suður-Kóreu, Japan eða Taívan, sem einnig hafa náð góðum árangri gegn veirunni, þrátt fyrir að vera ekki alræðisríki.“
Svona hefst ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag þar sem Davíð Oddsson, ritstjóri blaðsins, heldur að öllum líkindum á penna. Davíð talar þá um Chernobyl slysið hræðilega í ljósi COVID-19 faraldursins. „Tsjernóbyl-slysið og viðbrögð stjórnvalda í Sovétríkjunum við því urðu á sínum tíma til þess að eyða því litla sem eftir var af trúverðugleika þeirra, þar sem það varpaði skýru ljósi á þá staðreynd að í engu var hægt að treysta á þær yfirlýsingar sem stjórnvöld gáfu. Þaggað var niður í þeim sem vildu vara við, og stofnanir lögðust á eitt í afneitun vandamálsins,“ segir í greininni.
„Um leið stofnuðu Sovétmenn ekki bara sínu eigin fólki, heldur flestum þjóðum Austur-Evrópu, í umtalsverða hættu, þar sem alls ekki mátti kasta rýrð á ímynd flokksins eða hugsjón kommúnismans, sem var þó fyrir löngu horfin flestum. Því hefur verið haldið fram síðar, að Tsjernóbyl-slysið hafi í raun verið upphafið að endalokum Sovétríkjanna, einmitt vegna þessara slælegu viðbragða stjórnvalda.“
Davíð ber þá viðbrögðin í Kína við faraldrinum saman við viðbrögð Sóvétmanna við kjarnorkuslysinu. „Viðbrögð kínversku kommúnistastjórnarinnar við upphafi faraldursins minnir um margt á þá tíma. Nú er vitað, að fyrstu tilfella kórónuveirunnar varð vart í Wuhan í lok nóvember, eða rúmum mánuði áður en Kínverjar viðurkenndu að um faraldur væri að ræða og tveimur mánuðum áður en þeir settu íbúa Wuhan í stranga sóttkví,“ segir höfundur.
„Þegar ungur læknir, Li Wenliang, tók eftir því að fólk væri að koma á sjúkrahúsið sem hann vann við með einkenni sem minntu á SARS-faraldurinn, varaði hann kollega sína við yfir samfélagsmiðla. Fyrir það fékk hann opinbera áminningu fyrir að „dreifa rangfærslum á netinu“, sem fyrst nú hefur verið dregin til baka. Aðrir, sem reyndu að gefa umheiminum mynd af ástandinu í Wuhan, hafa horfið sporlaust.“
Davíð segir afleiðingu þessarar stefnu birtast okkur á hverjum degi. „Kórónuveirufaraldurinn hefði líklega ekki þurft að blossa upp eða verða að heimsfaraldri, ef sannleikurinn hefði mátt ráða, frekar en ótti um að Kommúnistaflokkurinn liti illa út,“ segir hann. „Fyrir vikið er álitshnekkir hans þeim mun meiri og traustið fer þverrandi, eins og sást af viðbrögðum á kínverskum samfélagsmiðlum við því þegar Wenliang lést af völdum veirunnar.“
Hann segir það eflaust vera þess vegna sem Kínversk stjórnvöld reyna að þagga umræðuna. „Eða það sem verra er, reyna að breyta sögunni um upphaf faraldursins. Meðal annars hefur því verið haldið fram að veiran hafi verið búin til í Bandaríkjunum, og að Bandaríkjaher eigi einhvern þátt í að faraldurinn blossaði upp í Wuhan-borg. Þá hafa sumir kínverskir fjölmiðlar reynt að láta líta svo út sem upphafsstað kórónuveirunnar sé að finna á Norður-Ítalíu.“
Davíð segir aðra aðferð sem kínverski Kommúnistaflokkurinn hefur beitt til þess að hylja stöðuna í landinu sé að vísa erlendum blaðamönnum úr landi. „Fyrir litlar sem engar sakir, með þeim afleiðingum að færri eru nú til staðar þar sem geta varpað ljósi á hið sanna ástand í Kína,“ segir hann.
„Hvort hin hrikalegu mistök, sem kínversk stjórnvöld gerðu í upphafi faraldursins, kveiki neista frelsis þar í landi líkt og Tsjernóbyl gerði skal ósagt látið, þar sem kommúnistastjórnin hefur frekar hert á heljartökum sínum síðustu vikurnar en hitt. Það ætti þó að vera orðið flestum ljóst, að stjórnarfar, sem þolir ekki að sannleikurinn sé birtur, jafnvel þegar mannslíf liggja við, er ekki mikils virði.“