Í þessari viku kemur út ný vara frá Lýsi sem heitir Fríar fitusýrur og þorskalýsi. Samkvæmt Einari Stefánssyni, prófessors í læknisfræði við HÍ, gæti þetta nýja Lýsi nýst í baráttunni við Covid-19, þar sem hinar fríu fitusýrur drepi ýmsar veirur og bakteríur, þar á meðal veirur sem eru með fituhjúp um sig, líkt og kórónaveiran.
Margir hafa komið að þróun vörunnar, þar á meðal Stella Ragnarsdóttir, lyfjafræðingur og framkvæmdastjóri Lipid Pharmaceuticals, og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis. Ráðgjöf veittu Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir og fyrrverandi landlæknir, og Arthúr Löve, prófessor í veirufræði.
Morgunblaðið greinir frá þessu í dag:
„Venjulegt lýsi og venjulegar fitur eru þríglýseríð, þar sem er ein glýserólsameind og þrjár fitusýrur. En ef þú klýfur þær upp þannig að fitusýrurnar verða fríar drepa þær bæði ýmsar bakteríur og ýmsar veirur. Þetta var rækilega sýnt fram á af Halldóri Þormar og samstarfsmönnum hans, þannig að það hefur legið fyrir í mörg ár að fríar fitusýrur eyðileggja svokallaðar hjúpaðar veirur, það eru veirur sem eru með fituhimnuhjúp í kringum sig. Til dæmis herpesveirur, RS-veirur og kórónuveirur,“
segir Einar og vitnar til Halldórs Þormars, fyrrverandi prófessors við HÍ sem hóf rannsóknir á fitusýrum fyrir 30 árum síðan.
Einar segir að með því að taka lýsið gæti það dregið stórkostlega úr smithættu, þar sem það eyðileggur veiruna á frumstigum smits:
„Við vissum sem sagt að þessar fitusýrur drepa hjúpaðar veirur og þar með væntanlega líka kórónuveirur og fórum að velta fyrir okkur hvernig við getum notað það. Þá kemur spurningin hvernig þessar veirur smitast og þær smitast þannig að við fáum þær inn um munn, nef eða augu og þær setjast að, til þess að byrja með, í efri hluta öndunarvegs. Í slímhúðinni í kokinu og þar í kring. Þannig að þessi hugsun varð til; ef við gætum með einhverju móti komið þessum fríu fitusýrum á þessar slímhúðir gætu þær vonandi eyðilagt þessar veirur á þessu stigi, það er að segja þegar þær eru rétt að berast upp í munninn og kokið. Við vitum líka að þessi meðgöngutími sjúkdómsins, þrír til sjö dagar sem líða frá smiti þar til fólk verður veikt, er þegar veiran er að búa um sig einmitt í kokinu. Þannig að hugsun okkar er sú að það megi ná að eyðileggja hana á því stigi,“
segir Einar og nefnir að oft leynist sannleikur í gömlum húsráðum:
„Ömmur okkar allra vissu það að taki maður lýsi losnar maður við pestir og kvef.“
Verið er að prófa vöruna sérstaklega gegn kórónuveirunni í Bandaríkjunum samkvæmt samningi við rannsóknarstofu þar ytra, en klínískar tilraunir þarf að gera einnig, sem Einar segir dýrar og tímafrekar.