Enginn þeirra sem veikst hefur af kórónaveirunni hefur þurft á öndunarvél að halda, samkvæmt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni. Morgunblaðið greinir frá.
Landspítalinn er með alls 26 öndunarvélar í sinni þjónustu og enn fleiri á landsvísu, en samkvæmt Þórólfi ætti sá fjöldi að reynast nægur í baráttunni við veiruna, því stjórnvöld dreifi álaginu með því að draga útbreiðsluna á langinn.
Þó er haft eftir Þórólfi að fleiri öndunarvélar séu í pöntun fyrir Landspítalann sem gefur til kynna að heilbrigðisyfirvöld vilji hafa vaðið fyrir neðan sig ef ástandið versni.
Haft er eftir Þórólfi að yfirvöld hafi ekki misst tökin á smitunum hér á landi og að samkomubannið sem tók gildi á miðnætti sé ekki pólitískt tæki, þó því hafi verið beitt sem slíku erlendis:
„Hins vegar held ég að það þurfi að beita þessu tæki á réttum stað í faraldrinum. Það er til þess að ramma betur inn það sem við höfum verið að gera og gefa því aukið vægi.“
Í gærkvöldi höfðu 175 smit verið greind hér á landi og um 1800 manns voru í sóttkví.
Þórólfur segir að ferðabann skili litlu og hefði þvert á móti valdið meiri vanda:
„Ef við hefðum gripið til örþrifaráða mjög snemma og sett á algjört ferðabann þá hefði það ekki breytt neinu heldur valdið miklu meiri skaða og vandkvæðum. Allir þeir sem hafa komið að utan og við höfum greint með sýkingu eru íslenskir ferðamenn,“
segir Þórólfur telur ferðabönn annarra landa vera pólitísks eðlis:
„Ég get ekki sagt til um það en kollegar mínir sem ég hef verið í sambandi við hafa ekki talað um ferðabönn fyrr en þau voru allt í einu komin á svo það hljómar eins og það sé pólitísk ákvörðun að grípa til svona harkalegra aðgerða frekar en faglegra, án þess að ég geti fullyrt um það.“