fbpx
Sunnudagur 29.desember 2024
Eyjan

Arngrímur guðfræðingur brjálaður út í borgina vegna bíltúrs og ætlar að sniðganga Kolaportið – Þetta er ástæðan

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 3. mars 2020 12:00

Engin bílastæði eru lengur gegnt Kolaportinu á Miðbakkanum við höfnina. Þurfti ARngrímur því frá að hverfa. Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það var fyrir skemmstu að ég ákvað að gera mér smá dagamun á sunnudegi enda var ekkert á döfinni en veður var frekar leiðinlegt. Ég ákvað að draga börnin frá sjónvarpinu og fara í Kolaportið með fjölskyldunni,“

skrifar Arngrímur Stefánsson, guðfræðingur, í Morgunblaðið í dag hvar hann lýsir miður skemmtilegri reynslu sinni af fyrirhugaðri heimsókn í Kolaportið.

Arngrímur býr í Keflavík og því var um klukkutíma rúnt að ræða hjá fjölskyldunni, sem vildi gera sér dagamun:

„Ég hef ekki farið í Kolaportið í langan tíma og aldrei síðan ég fékk drengina til fósturráðstöfunar og hefði þetta því átt að verða fyrsta skipti mitt og konunnar með drengina í Kolaportinu.“

Fékk hvergi stæði

Ferð Arngríms átti þó eftir að snúast upp í martröð, þegar Arngrímur reyndi að finna bílastæði fyrir fjölskyldubílinn:

„Þar sem konan var mjög kvefuð var ákveðið að leggja ekki langt í burtu heldur sem næst, þar sem veður var eins og fyrr er getið frekar leiðinlegt. Eftir að hafa hringsólað um svæðið í meira en hálftíma í leit að bílastæði ákvað ég að nú þyrfti konan bara að þola smá kulda og hroll, ég myndi leggja úti á höfn og hún gæti bara gengið yfir götuna. En þá blasti við körfuboltavöllur sem þakti hálft gamla bílastæðið. Hinn hluti bílastæðisins var lokaður af og merktur einkastæði,“

skrifar Arngrímur sem tók málin í eigin hendur:

„Því varð raunin að ekki var farið í Kolaportið þann daginn (né nokkurn tímann í framtíðinni er ég hræddur um) og drengirnir voru hundfúlir að hafa keyrt alla leið til Reykjavíkur frá Keflavík til þess eins að keyra beint heim aftur. Ég fór hins vegar í kaffi til bróður míns svo að ferðin færi ekki til ónýtis.“

Í fyrra breytti Reykjavíkurborg Miðbakkanum við höfnina, þar sem áður voru bílastæði. Leggja átti áherslu á „samspil milli hafnar, borgar og borgarbúa“ og voru ungir listamenn fengnir til að mála svæðið þar sem ýmis tímabundin verkefni voru sett upp, eins og körfuboltavöllur, hjólaleikvöllur, hjólabrettaleikvöllur og matartorg með matarvögnum.

Margar spurningar

Arngrímur segir málið hafa vakið hjá sér ýmsar spurningar er hann hringsólaði um borgina í leit að bílastæði:

„Ég minnist bíómyndarinnar American History X þar sem menn spiluðu jú körfubolta utanhúss, en það var í Ameríku á sólríkum degi. Hins vegar búum við á Íslandi þar sem sólríkir dagar eru sjaldgæfir. Auk þess efa ég að margir hafi áhuga á að spila körfubolta við Sæbrautina og allan útblásturinn sem henni fylgir. Mér er því lífsins ómögulegt að skilja hvers vegna þessi körfuboltavöllur var gerður, en hann var þakinn snjó á þessum degi og engin merki í snjónum um mannaferðir. Bílastæði voru þó öll út í fótsporum sem eru skýr merki um mannaferðir.“

Arngrímur segist hugsa með „hryllingi“ til annarra bílastæða í borginni, til dæmis við Háskóla Íslands í upphafi hverjar annar og undrast síðan af hverju byggja eigi nýtt sjúkrahús við Hringbraut, á dýrasta svæðinu:

„Á sama tíma gasprar borgarmeirihlutinn oftar en ekki um þéttingu byggðar sem er ekki til þess að leysa málið.“

Tæknin til bjargar

Vill Arngrímur leysa málin með tækni og netverslun, sem gæti orðið til þess að vega á móti „miðsvæðis-væðingu“:

„Nú höfum við tæknina sem þarf til að vega á móti miðsvæðisvæðingu. Netverslun hefur t.d. orðið áberandi upp á síðkastið og verslanir í miðbænum vafalítið ekki farið varhluta af því. Ef til vill í framtíðinni verða verslanir miðbæjarins eingöngu með sýningarvarning og lagerinn sjálfur keyður heim til kaupenda úr vöruskemmum í Mosfellsbæ, en markaðshagkerfið ræður því miður ekki hvernig opinberar stofnanir eru reknar og hagræðingin kemur því eingöngu til vegna pólitískra ákvarðana. Því finnst mér þurfa að gera úttekt á hinum ýmsu stofnunum ríkisins og ríkisstyrktum stofnunum (t.d. Slysavarnaskóla sjómanna), hvort ekki sé verið að sóa óþarfa fjármunum í dýrt húsnæði miðsvæðis í Reykjavík þegar ódýrari kostir eru til annars staðar, mögulega án gjaldskyldra bílastæða.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?