Samkvæmt ábatagreiningu starfshóps Reykjavíkurborgar um mótun ferðastefnu var kostnaður Reykjavíkurborgar vegna ferðamanna 8,3 milljörðum umfram tekjur árið 2018.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, telur þessa framsetningu í minnisblaði um ábata Reykjavíkurborgar af ferðaþjónustu, koma á óvart og væri til þess fallið að reka fleyg í traust þeirra sem reka ferðaþjónustufyrirtæki í Reykjavík á því að stjórnendur borgarinnar hafi raunverulegan áhuga á uppbyggingu ferðaþjónustu sem atvinnugrein í borginni.
Í minnisblaðinu kemur fram að neikvæður ábati sé fyrir Reykjavík af ferðaþjónustu, engu að síður er ítrekað tekur fram að ferðamannastraumur til landsins hafi jákvæð áhrif á ytra rekstrarumhverfi borgarinnar.
Þingmaður Viðreisnar, Þorsteinn Víglundsson, er þessu ósammála og bendir á meiri hluti þeirra tekna sem hið opinbera fái úr ferðaþjónustunni renni í ríkissjóð en ekki til sveitarfélaganna.
„Þetta eru sérkennileg viðbrögð hjá framkvæmdastjóra ferðaþjónustunnar. Minnisblað Reykjavíkurborgar bendir aðeins á augljósa staðreynd. Helstu tekjur hins opinbera af ferðaþjónustu renna í ríkissjóð á meðan stór hluti útgjalda leggst á sveitarfélög. Um þetta hefur lengi verið fjallað án þess að nokkuð hafi verið gert til að rétta hlut sveitarfélaganna. Beinar tekjur ríkisins af ferðaþjónustu liggja í virðisaukaskatti, eldsneytisgjöldum, tryggingargjaldi, gistináttagjaldi, kolefnisgjöldum, innflutningsgjöldum á bifreiðar og svo mætti áfram telja. Tekjur sveitarfélaga liggja í fasteignagjöldum og útsvari. Sveitarfélög þurfa á móti að byggja upp fjölþætta innviði fyrir ferðaþjónustuna.“
Þvert á móti sýni þessi gagnrýni borgarinnar ekki fram á neikvæða afstöðu til atvinnugreinarinnar heldur endurspegli efnahagslegan veruleika sem hafi ítrekað verið gagnrýndur af sveitarfélögum.
„Þvert á móti er í minnisblaði borgarinnar ítrekað talað um jákvæð áhrif greinarinnar, þótt þau veðri ekki metin til fjár fyrir sveitarfélög í samantekt sem þessari. Í stjórnmálaumræðu er því miður of oft reynt að draga fram öfgar og ágreining í stað þess að ýta undir vandaða umræðu. Jóhannes Þór fellur því miður í þann pytt hér. Það er mikilvægt að geta rætt tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga án sleggjudóma um að í slíkri umræðu liggi einhver andúð á þessari mikilvægu atvinnugrein.“