Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, lagði fram á fundi forsætisnefndar borgarinnar að fundarumsjónarkerfi í borgarstjórnarsalnum verði fjarlægt, skilað og kannað með endurgreiðslu.
Kerfið kostaði 34 milljónir og var ætlað að gera borgarfulltrúum kleift að tala úr sæti sínu. Gert er ráð fyrir slíku kerfi í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, en þar segir að stutt andsvör og athugasemdir borgarfulltrúa skuli að jafnaði veitt úr sæti þeirra. Hins vegar hefur kerfinu aldrei verið komið í gagnið. Hljóðnemar standa því fyrir framan hvern borgarfulltrúa á borgarstjórnarfundum, án þess að það þjóni tilgangi.
„Fundarumsjónarkerfið kostaði 34 milljónir. Í rúmt ár hefur fundarumsjónarkerfi (hljóðnemar) verið á borðum hvers borgarfulltrúa í þessum tilgangi en þeir hafa ekki verið virkir. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að mistök hafi verið gerð við að fjárfesta í slíku kerfi enda kerfið ekki í notkun og kemur varla til með að vera tekið í notkun. Þess utan er svona kerfi óþarft þar sem hingað til hafa borgarfulltrúar gengið í pontu til að veita andsvör og gera stuttar athugasemdir. Ekki mælir gegn því að þeir geri það áfram,“ segir í tillögu Kolbrúnar.