„Mannréttindaráð fundar tvisvar í mánuði og því er það ótrúlega skrýtið að styrkurinn sé veittur eftir á. Ég geri alvarlegar athugasemdir við þessa skyndistyrki borgarinnar eins og kemur fram í bókun minni. Og það vekur athygli að umsóknin er ódagsett. Er það vegna þess að verið er að gera upp bakreikninga og halla á þessari svokölluðu ráðstefnu? Er bara hægt að senda bakreikning á borgina og útsvarsgreiðendur?“
segir Vigdís Hauksdóttir við Eyjuna vegna skyndistyrks sem Bára Halldórsdóttir, uppljóstrarinn í Klausturmálinu, fékk frá mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði þann 28. nóvember í fyrra, að upphæð 226 þúsund krónur, vegna Klausturgate – ári síðar, málfundar um Klausturmálið.
Styrkurinn var veittur þann 28. nóvember 2019, en viðburðurinn fór fram meira en viku áður, þann 20. nóvember. Í reglum ráðsins um styrki segir:
„Skyndistyrkir eru að jafnaði afgreiddir jafnóðum á fundum mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Ráðið fundar hálfsmánaðarlega, annan og fjórða fimmtudag hvers mánaðar. Umsóknir um skyndistyrki þurfa að berast mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu fyrir kl. 13.00 á mánudegi fyrir fund ráðsins á fimmtudegi.“
Styrkurinn til Báru er hinsvegar veittur á grundvelli 2.greinar styrkjareglna ráðsins:
„Samkvæmt verklagsreglum ráðsins er mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráði heimilt að halda eftir allt að 50% samþykktrar heildarupphæðar styrkfjár til að bregðast við umsóknum sem berast utan auglýsts umsóknartíma, enda sé þá um að ræða umsóknir vegna atburða eða verkefna sem ekki var hægt að sjá fyrir eða skipuleggja í undanfara almennrar styrkjaúthlutunar.“
Virðist styrkveitingin því í samræmi við reglur ráðsins.
Styrkveiting borgarráðs í gær upp á 25 milljónir til 26 verkefna varð tilefni til harðorðrar bókunar Vigdísar um málið, sem sagði slíkar styrkveitingar ógagnsæjar og taldi hættu á að ekki væri gætt jafnræðis við úthlutun fjármagns. Tók hún dæmi um áðurnefnda styrkveitingu til Báru sem hún sagði pólitíska:
„Var þar um gríðarlega pólitíska ákvörðun að ræða á kostnað skattgreiðenda sem er ráðinu algjörlega til skammar. Þetta dæmi sannar að styrktarfé er notað í þeim tilgangi að ná höggi á pólitíska andstæðinga. Ekki gilda nægjanlega skýrar reglur um hvort sækja megi um styrk í fleiri en einu ráði þannig að einn og sami aðilinn/verkefni fái styrk á mörgum stöðum á meðan öðrum er hafnað. Leggja á niður þetta ógegnsæja kerfi til að fyrirbyggja misnotkun á almannafé,“
sagði Vigdís, en sem kunnugt er voru það þingmenn Miðflokksins sem voru í aðalhlutverki í Klausturmálinu.
Meirihlutinn svaraði bókun Vigdísar á þá leið að allt ferlið í kringum styrkina væri til að auka gagnsæi, þannig hefði stýrihópurinn um styrkina verið skipaður af mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði og hlutverk stýrihópsins væri að samrýna verklag og koma með tillögur til að auka gagnsæi og eftirlit með samningum og úthlutunum styrkja, auk þess að tryggja sýnileika og auka aðgengi borgarbúa að styrkumsóknum:
„Skyndistyrkir hafa verið veittir á vegum mannréttindaráðs og nú mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs til þess að styðja við frumkvæði grasrótarsamtaka sem vinna að málaflokki fagráðsins, sér í lagi til að koma til móts við viljann til að skipuleggja viðburði sem koma upp vegna atburða og aðstæðna í samfélaginu sem erfitt er að sjá fyrir. Dæmi um slíka atburði eru myllumerkisbyltingarnar #MeToo, #FreeTheNipple og nú #Klausturgate. Það að kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga sem fara með löggjafarvald vegi ómaklega að minnihlutahópum í samfélaginu með smekklausum athugasemdum hlýtur að teljast alvarlegur atburður sem hefur sig yfir almenna flokkspólitík sem almenningur og fulltrúar þvert á flokka geti sameinast um að standa gegn,“
segir í bókuninni.
Vigdís lagði þá fram aðra bókun þar sem hún auglýsir eftir aðila til að halda ráðstefnu um dónakarla á vinstri vængnum og hljóta styrk til þess frá borginni:
„Þetta mál er herfileg misnotkun á almannafé. Hér er upplýst að 226.000 kr. af útsvarsgreiðslum Reykvíkinga fóru í hápólitískan styrk. Er það hlutverk Reykjavíkur að fara svona með opinbert fé á meðan ekki er hægt að sinna grunnþjónustu á ýmsum sviðum borgarinnar. Hér er auglýst eftir aðila sem vill sækja um styrk til að halda ráðstefnu um káfkarlana á vinstri væng stjórnmálanna og verður spennandi að sjá hvort verkefnið fái sama greiða aðganginn að útsvarstekjum borgarinnar í gegnum skyndistyrki mannréttindaráðs.“