Áslaug hefur nú þegar lagt fram drög að frumvarpi til að leyfa sölu á áfengi í vefverslunum hér á landi. Það er í dag leyfilegt að kaupa áfengi í gegnum erlendar vefverslanir. Þá er hægt að fá það sent heim að dyrum.
Því segir Áslaug að það sé fullt tilefni að endurskoða löggjöfina um áfengisauglýsingar. „Það er annað óréttlæti og ójafnræði sem íslenskir framleiðendur verða fyrir,“ segir hún. „Það er auðvitað þannig í dag að áfengisauglýsingar eru alls staðar hvort sem það er þegar við horfum á erlenda íþróttaleiki í sjónvarpi, þegar við flettum erlendum tímaritum eða erum á öllum þessum samfélagsmiðlum í dag, þannig að bannið er ekki að virka.“
Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, virðist ekki vera sáttur með tilætlanir dómsmálaráðherrans en hann segir að réttur barna til að vera laus við áfengisáróður sé mikilvægari en viðskiptasjónarmið. Árni segir að auglýsingunum sé markvisst beint að börnum og ungmennum. Þá segir hann að það þurfi ekki að slaka á forvarnar- og lýðheilsusjónarmiðum þrátt fyrir að auglýsingar komi hingað til lands með nýjum leiðum.