Þetta er kafli úr bók sem nefnist Hnífur, það er nýjasta bók Jo Nesbö um lögreglumanninn Harry Hole. Harry er hugprúður og vænn, en á oft í dálitlum erfiðleikum með sjálfan sig.
Þarna segir frá unglingsárum Harry Hole, en nú vill svo til að þetta er nánast eins og lýsing á þessu sama skeiði í lífi mínu – og hún býsna nákvæm. Við Oddur Sigurðsson vinur minn dvöldum löngum stundum við borðtennisleik í kjallaranum á Ásvallagötu 13. Við hlustuðum meðal annars á King Crimson – ég var mikill proggari – og það passar alveg að við höfum haft meira vit á „snúningsboltum og proggrokki“ en stelpum.
Ég hef hins vegar stundum orðað það þannig að ég hafi hætt í borðtennis þegar fyrsta stelpan gaf mér almennilega gaum. Svo man ég að ég sá hana ganga yfir skólalóðina í Hagaskóla og þá var íþróttaferlinum eiginlega lokið. En ég sakna samt borðtennissins smá.