Vigdís Hauksdóttir hefur átt marga snilldarleiki varðandi íslenska tungu – það er ekki hægt að segja annað en málnotkun hennar sé skapandi og myndræn. Um það eru allmörg dæmi. Til dæmis talaði hún eitt sinn um að stinga höfðinu í steininn og í annað sinn um að kasta grjóti úr steinhúsi.
Hér er nýtt dæmi, það er úr hörkurifrildi á fundi borgarstjórnar í dag en þar var rætt um hið eldfima og langvinna braggamál.
„Þetta eru aumingjaleg vinnubrögð en alveg í anda borgarstjóra sem er kominn út í horn og hangir á horreiminni í sínum stól. Ráðast á persónu mína. Vel gert Dagur B. Eggertsson. Eini starfandi maður sem var í Braggamálinu. Til hamingju.“
Ekki dettur mér í hug að leiðrétta málfar Vigdísar. Það gæðir pólitíkina lífi á sinn hátt. En hefðbundnara hefði til dæmis verið að segja að Dagur haldi dauðahaldi í stól sinn, gripi í hálmsstrá í embætti eða héngi á bláþræði – svo nokkuð sé nefnt.
Því þótt maður geti vel séð fyrir sér einhvers konar horreim, þá mun vera algengara að segja að menn hangi á horriminni – en það þýðir að líða mikinn skort, svelta, vera bjargþrota, fátækur.