Líkt og fjallað var um á miðvikudag voru stjórnendur Hafrannsóknarstofnunar Íslands (Hafró) bornir þungum sökum í bréfi frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) til forstjóra Hafró, en nokkrir félagsmenn FÍN starfa hjá Hafró.
Saka þeir stjórnendur Hafró um að framkvæma hluti eftir eigin geðþótta, mögulega í bága við lög og sýna öðrum starfsmönnum vanvirðingu og viðhalda ógnarstjórnun á vinnustaðnum. Þá eru einnig ásakanir um kynferðislega áreitni, mögulegt ofbeldi og einelti.
Stjórnendur Hafró hafa svarað bréfi FÍN á heimasíðu sinni. Þar er krafist opinberar afsökunarbeiðni, ellegar muni Hafró krefjast bóta vegna meiðyrða.
Eru ásakanir FÍN sagðar „órökstuddar dylgjur“ og því mótmælt að stjórnendur viðhafi ógnandi framkomu og stundi hótanir. Eru slíkar ásakanir sagðar meiðandi og varpa rýrð á æru stjórnenda, ekki síst þar sem engar formlegar kvartanir hafi verið lagðar fram gegn stofnuninni eða stjórnendum hennar.
Þá eru ásakanirnar sagðar rýra trúverðugleika Hafró.
Bréfið er undirritað af Sigurði Guðjónssyni forstjóra sem og öðrum stjórnendum stofnunarinnar:
Sóley Gréta Sveinsdóttir Morthens, sviðsstjóri þróunar-, miðlunar- og mannauðssviðs, Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs, Guðmundur J. Óskarsson sviðsstjóri uppsjávarsviðs, Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis- og fiskræktarsviðs, Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnssviðs, Sigvaldi Egill Lárusson, sviðsstjóri fjármála- og rekstrarsviðs.