Forgangi bílaumferðar á gatnamótum Frakkastígs og Skúlagötu hefur verið breytt. Umferð eftir Skúlagötu víkur fyrir umferð um Frakkastíg:
„Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát þar til allir vegfarendur hafa náð að venjast þessari breytingu,“
segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Breytingarnar eru gerðar í framhaldi af nýjum ljósastýrðum gatnamótum Frakkastígs og Sæbrautar, en þau voru tekin í notkun í haust. Með tilkomu nýju gatnamótanna kom betri gönguleið frá Frakkastíg að Sólfarinu, auk þess sem götulýsing var bætt til mikilla muna.
Vonandi er að þessar breytingar gangi betur en þegar Reykjavíkurborg brá á það ráð í sumar að hleypa bílaumferð upp Laugaveginn, að hluta. Olli það nokkru fjaðrafoki hjá vegfarendum, sem keyrðu ítrekað á móti umferð og margbrutu umferðarlög, þar sem þeir höfðu ekki heyrt af breytingunni, eða tóku ekki eftir merkingum.