Stefán Ólafsson, prófessor og sérfræðingur hjá Eflingu, segir að endurmeta þurfi sérstaklega störf er snúast um ummönnun barna, aldraðra og sjúkra og hækka laun þessara stétta sérstaklega. Slíkt eigi að gera gerst án þess að launahækkanirnar hlaupi upp launastigann í svokölluðu höfrungahlaupi, enda væri um sérstaka aðgerð að ræða, þar sem þetta fólk hefur dregist aftur úr sambærilegum stéttum. Þetta kom fram í Silfrinu á RÚV í dag þar sem kjaramálin voru meðal annars rædd en allsherjarverkfall ófaglærðs starfsfólks hjá Reykjavíkurborg hefst á morgun.
Stefán benti á að þessar stéttir hefðu sáralitlar aukatekjur en tekjur ýmissa annarra stétta hefðu verið bætt með aukagreiðslum, til dæmis hjá sorphirðumönnum og þeir væru því núna með rúmlega 200.000 króna hærri laun en þessar stéttir þrátt fyrir að vera með svipuð grunnlaun.
Þegar Stefán var spurður hvort eðlilegt væri að Reykjavíkurborg bæri hitann og þungann af þessu endurmati þessara stétta sagði hann að svo væri þar sem húsnæðiskostnaður væri hvergi hærri en í Reykjavík og hann æti upp kaupmátt þessa fólks.