„Mér finnst ekki að þingmennskan eigi að vera ævistarf. Tvö til þrjú kjörtímabil eru alveg nóg. Vandinn er hins vegar sá að fólk þarf að geta átt endurkomu í samfélagið. Það er ekki þannig á Íslandi því svo virðist sem menn verði vanhelgir af að sitja á Alþingi Íslendinga. Fólk fær ekki vinnu. Erlendis eru fyrrverandi þingmenn eftirsóttur starfskraftur, bæði í einka- og opinbera geiranum, sem stjórnendur eða ráðgjafar. Það er eitthvað allt annað í gangi hér sem veldur því að þegar fólk kemst inn á þing þá hangir það eins og hundar á roði, enda hafa margir ekki að neinu að hverfa eftir þingmennsku.“
Þetta segir Ólína Þorvarðardóttir í helgarviðtali við Fréttablaðið. Ólína gerði fyrir skömmu samkomulag við ríkið um bótagreiðslur eftir að úrskurðað hafði verið að gengið hefði verið framhjá henni með óréttmætum hætti við ráðningu þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum. Við hvetjum alla til að lesa þetta ágæta viðtal en staðmænumst við áhugaverð ummæli Ólínu um líf þingmannsins og ekki síst framhaldslífið á vinnumarkaði. Eins og að ofan getur segir Ólína að þingmenn eigi vart afturkvæmt á vinnumarkaðinn eftir þingsetu, sem sé afar óæskilegt, því ekki sé gott að gera þingmennsku að ævistarfi. Hún segir jafnframt um þingmannsstarfið:
„Þingmaður nýtur engrar friðhelgi. Hann er í vinnunni alla daga, öll kvöld, alla frídaga. Á mínum tíma voru launin ekki í neinu samræmi við álagið. Þingmaður sem sinnir sínu starfi vel er þræll í þágu þjóðar.“
Ólína bendir á að ef þingmenn ættu í vændum betri viðbrögð vinnumarkaðarins myndu þeir ekki vera eins þaulsetnir á þingi og raun ber vitni og minna yrði um hrossakaup varðandi stöðuveitingar fyrir fráfarandi þingmenn. Hún segir: „Flokkarnir að koma sínum mönnum á alla pósta og líta á það sem sitt hlutverk að stoppa annarra flokka fólk í því að nýta krafta sína og hæfileika. Þetta er skaðlegt fyrir samfélagsheildina.“