Unnendur kæfu hafa tekið eftir því að SS hefur breytt umbúðum sínum fyrir kæfuafurðir sínar. Við það minnkar magnið úr 200 grömmum niður í 180 grömm.
Hins vegar virðist sem verðið hafi haldist óbreytt, alltént í verslunum Bónuss og því um eiginlega verðhækkun að ræða, þar sem minna fæst fyrir sama verð.
Á þetta er bent í Facebookhópnum Vertu á verði – eftirlit með verðlagi:
„Kæfa, breyting á pakkningum fer úr 200gr í 180gr sama verð!“
Ekki eru allir á eitt sáttir við að verðið haldist óbreytt í athugasemdakerfinu. Sumir gagnrýna Bónus fyrir græðgi meðan aðrir beina reiði sinni að SS:
„Vondar umbúðir, lokið tollir ekki á. Slæm breyting og hættur að kaupa,“
segir einn.
Annar bendir á að neytendur hafi ákveðið vald sem þeir séu yfirleitt latir við að beita hér á landi:
„Álagning er frjáls. En ef neytendur myndu allir spá í þessum hlutum myndu framleiðendur ekki komast upp með þetta. Ef minni kæfa selst jafn vel á þessu verði, þá eykur þetta hagnaðinn þeirra. Og það er auðvitað eina markmiðmið.“
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, sagði við Eyjuna að SS hefði hækkað verðið til sín um 9 prósent, en álagningin til neytenda komin væri alls 11 prósent:
„Listaverð per gramm hækkaði um 9% en útsöluverð út úr Bónus hækkaði um 11% per gramm. Mismunur á þessu er hækkun á álagningu hjá Bónus.“
Steinþór Skúlason, forstjóri SS, sagði í skriflegu svari við Eyjuna að þetta væri rétt hjá Guðmundi, en heildsöluverð hefði þó lækkað lítillega:
„Sé ekki betur en svar Guðmundar sé rétt. Við lækkuðum heildsöluverð um 3% en þeir héldu óbreyttu smásöluverði. Ég veit reyndar ekkert um smásöluverð og við skiptum okkur ekki af því,“
sagði Steinþór og nefndi að kæfan hefði átt að hækka um 3% í haust, en heildsöluverðið á gömlu umbúðunum væri 366 krónur, en á þeim nýju 359 krónur:
„SS hækkaði flestar vörur í haust um 3% og við hefðum hækkað kæfur einnig ef þessi umbúðabreyting hefði ekki staðið til. Ef við tökum Skólakæfuna sem dæmi þá hefði hún með 3% hækkun í haust farið í 377 og hækkun á kg verði með minni umbúðum því verið tæp 6% sem skýrist af því að nýju umbúðirnar eru dýrari pr kg og allur annar kostnaður fyrir utan kæfuefnið sjálft er sá sami, sama hvort dósin er 180 eða 200 gr.“