Könnun sem Maskína gerði fyrir Sjúkratryggingar Íslands um heilsugæslustöðvar og traust almennings til þeirra, leiðir í ljós að flestir bera mesta traustið til einkarekinna heilsugæslustöðva. Könnunin hefur ekki verið gerð opinber, en Morgunblaðið greinir frá.
Alls 19 heilsugæslustöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu. Svöruðu þátttakendur hvort þeir báru mjög mikið, frekar mikið, í meðallagi, frekar lítið eða mjög lítið traust til þeirra stöðva sem þeir hefðu leitað til.
Tvær stöðvar fengu einkunnina 4.15, Heilsugæslan Höfða, og Heilsugæslan í Salahverfi. Þá kom Heilsugæslan á Seltjarnarnesi og Vesturbæ með 4.08 og Heilsugæslan Lágmúla með 4.06. Heilsugæslan í Urðarhvarfi fékk fjóra í einkunn.
Allar eru þær einkareknar, nema sú á Seltjarnarnesi og Vesturbæ.
Meðaleinkunn einkareknu stöðvanna í könnuninni var 4.09 en einkunn þeirra sem reknar eru af hinu opinbera var 3.91. Meðaleinkunn allra stöðva í bland var 3.95.
Varðandi tillögur til úrbóta í þjónustu heilsugæslustöðva, nefndu flestir styttri biðtíma, þá aukið aðgengi að læknum í gegnum síma, og þá aukin rafræn þjónusta.