Suður-kóreska kvikmyndin Parasite vann fern Óskarsverðlaun í nótt. Fyrir bestu leikstjórn, besta handrit, sem besta alþjóðlega mynd og sem besta kvikmynd. Þetta kemur vissulega á óvart. Myndir sem eru ekki engilsaxneskar eiga yfirleitt ekki svo góðu gengi að fagna á Óskarsverðlaununum. Kvikmynd sem ekki er á ensku hefur aldrei unnið Óskarsverðlaunin fyrr. Leikstjórinn Bong Joon-ho er nú kominn í flokk með fremstu kvikmyndaleikstjórum samtímans. Þess má geta að Tómas Lemarquis lék í einni mynda hans, framtíðardystópíunni Snowpiercer, en annars hefur Bong Joon-ho verið þekktur fyrir að gera hryllingsmyndir – oft með nokkuð grárri kímnigáfu.
Það var líka eitthvað ágætt við þessi endalok á hátíðinni. Hildur Guðnadóttir fékk sín verðlaun, flutti alveg fyrirtaks ræðu og inspírerandi, svo komu tveir frægir leikarar, Joaquin Phoenix og René Zellweger, og blöðruðu bæði einhverja sjálfhverfa vitleysu svo raunalegt var á að hlýða. Jane Fonda kom á svið að kynna bestu myndina, hún er komin á níræðisaldur en það er alltaf verið að handtaka hana í mótmælum. Hún tilkynnti að Parasite hefði orðið fyrir valinu.
Þá var komið að hinum stóra hópi fá Kóreu sem réði sér ekki fyrir kæti og einlægni, það átti að skrúfa upp ljósin til að þagga niður í ræðuhöldunum, en þá tók salurinn völdin og mótmælti. Þau töluðu áfram. Máttu það alveg. Þetta er í raun mikill sigur fyrir sjálfa kvikmyndalistina.
Ég skrifaði litla grein um Parasite fyrir stuttu, vakti þá athygli á að hún væri sýnd í hinu ómissandi Bíó Paradís, og hér birtist hún aftur:
„Parasite er líklega kórónan á ágætu kvikmuyndaári. Fékk stóru verðlaunin í Cannes síðastliðið vor, er nú tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta kvikmynd. .
Í atriði framarlega í myndinni tönnlast ein persónan, ungur maður, á orðinu metafóra – án þess í raun að skilja hvað það þýðir. Og svo sannarlega er myndin metafóra – eða myndhvörf eins og það er kallað á íslensku. Þarna er fólki óhikað líkt við sníkjudýr eða aðskotadýr. Þetta er heldur nöturleg sýn á mannfélagið – en um leið er hún mjög kaldhæðin, eiginlega óhugnanlega fyndin.
Myndin fjallar í skemmstu máli um fátæka fjölskyldu, föður, móður, ungan karl og unga konu, sem eru líkt og utanveltu við samfélagið, búa í kjallaraholu innan um kakkalakka, lifa á harki, eru íraun algjörir lúserar. Fyrir tilviljun kemst ungi maðurinn í tæri við ríka fjölskyldu sem býr í glæsilegu og fjarska nýtískulegu húsi – brátt er öll fátæka fjölskyldan komin í vinnu hjá ríku fjölskyldunni. Til þess þurfa þau að villa á sér heimildir, það má ekki komast upp að þau eru skyld. Þannig verða þau nokkurs konar sníkjudýr – en í djúpum kjallara hússins, hönnuðum fyrir kjarnorkustríð, búa svo önnur snýkjudýr sem eiga eftir að berjast um yfirráð við hin. Af því spinnst hin óvæntasta atburðarás – í þessu húsi sem er einstök umgjörð um myndina.
Þetta er snilldarlega vel skrifuð saga og sett fram af mikilli nákvæmni og hugviti. Í lokin fer allt í loft upp í mikilli hrinu ofbeldis – yfirborðskennd bönd kurteisi og siðfágunar bresta algjörlega. Fátæka fjölskyldan úr kjallaraholunni – sem á sama tíma fyllist af hroða úr ræsum borgarinnar í miklu flóði – er vissulega ýtin, ófyrirleitin og hefur ófínan smekk. En þegar allt kemur til alls er ríka fjölskyldan engu betri í yfirborðsmennsku sinni, yfirlæti og gervifágun. Þetta er grimmúðleg lýsing á stéttaskiptingu og það er nánast eins og gráglettni örlaganna hver býr í kjallaranum og hver er í fínu stofunni með góða útsýnið. Og hver er þá sníkjudýrið?
Parasite er sýnd um þessar mundir í Bíó Paradís. Ekki láta ykkur koma á óvart þó hún fái Óskarsverðlaunin.“