Milli áranna 2012 og 2019 greiddi Samherji sex til níu sinnum hærri upphæð í kvótakostnað í Namibíu fyrir makrílstonnið, miðað við það sem Samherji greiðir fyrir makrílstonnið á Íslandi. Þetta kemur fram í Stundinni, sem reiknar meintar mútugreiðslur Samherja inn í upphæðina um kvótakostnað Samherja í Namibíu.
Stundin hefur eftir Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstrara í Samherjamálinu, að makrílstonnið hafi kostað á bilinu 180 -240 dollara í Namibíu en það fór hæst í 310 dollara árið 2014.
Á gengi dagsins eru 180 dollarar tæplega 23 þúsund krónur og 240 dollarar eru um 30 þúsund krónur.
Veiðigjöld Samherja fyrir hvert tonn af makríl á Íslandi árið 2019 voru hinsvegar 3550 krónur, samkvæmt vefsíðu Fiskistofu. Veiðigjöldin fyrir kílóverðið af makríl hér á landi árið 2019 voru 3.55 krónur og 3.35 krónur árið 2018.
Stundin greinir frá því að ef Samherji ætti að greiða sama verð fyrir makrílinn á Íslandi og hann gerði í Namibíu, þyrfti veiðigjaldið að hækka úr 3.55 krónum upp í 23 til 30 þúsund krónur per kíló, sem er 6.5 föld og 8.6 föld hækkun.
Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra var heitt í hamsi á þinginu í gær þegar Viðreisn, Píratar og Samfylking óskuðu eftir skýrslubeiðni frá Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra þar sem fram kæmi samanburður á veiðigjöldum Samherja í Namibíu og hér á landi. Sagði hann að stjórnarandstaðan væri að þyrla upp pólitísku moldviðri og taldi um lýðskrum að ræða.