Áætlaður kostnaður höfuðstöðva Landsbankans við Austurhöfn, sem telja á um 16.500 fermetra á dýrustu lóð landsins, er nú kominn upp í 11.8 milljarða króna. Upphaflega var áætlað að byggingin myndi kosta um níu milljarða. Þetta kemur fram í erindi formanns bankaráðs Landsbankans í ársskýrslu bankans sem kom út í gær og Kjarninn greinir frá.
Til samanburðar má nefna að endanlegur kostnaður við byggingu tónlistarhúsið Hörpu í hruninu var 21 milljarður króna miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í mars 2015. Hafa ber í huga að talan er hærri miðað við byggingarvísitölu dagsins í dag.
Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, segir í skýrslunni að með byggingunni sparist hálfur milljarður á ári:
„Þegar búið var að leggja mat á tillögur sem bárust um hönnun hússins var ljóst að byggingin yrði kostnaðarsamari en upphaflega var gert ráð fyrir. Við bættist kostnaður vegna ákvörðunar um að húsið yrði umhverfisvottað samkvæmt BREEAM-umhverfisstaðlinum. Samkvæmt þeirri kostnaðaráætlun sem bankaráð hefur samþykkt er nú reiknað með að heildarkostnaður við bygginguna verði 11,8 milljarðar króna. Þrátt fyrir að kostnaður verði því um 1,8 milljörðum króna hærri en upphaflega var gert ráð fyrir er ljóst að flutningur í húsið mun hafa í för með sér nauðsynlega hagræðingu. Gert er ráð fyrir að árlegur sparnaður bankans vegna flutnings nemi um 500 milljónum króna.“
Þá kemur fram hjá Helgu að Landsbankinn hyggist selja eða leigja frá sér um 40% hússins og er kostnaður við þann hluta sem bankinn mun nýta áætlaður um 7,5 milljarðar króna.
Sem kunnugt er þá er Landsbankinn nánast að fullu í eigu íslenska ríkisins, en ríkið kom hvergi að ákvörðuninni að byggingu höfuðstöðvanna. Ákvörðun var ekki borin undir hluthafafund Landsbankans þar sem ríkið er langstærsti hluthafinn. Þá kom Bankasýsla ríkisins heldur hvergi að málum, en hún fer með hlut ríkissjóðs í Landsbankanum.
Ákvörðunin um byggingu höfuðstöðvanna var tekin á fundi bankaráðs árið 2017 samkvæmt Kjarnanum, en Landsbankinn hefur ekki viljað upplýsa hvernig atkvæðin féllu þegar kosið var um málið í bankaráðinu sem telur sjö manns.
Ákvörðunin um bygginguna hefur farið fyrir brjóstið á mörgum, þar sem um gríðarlegar fjárhæðir er að ræða hjá ríkisbanka.
Sjá einnig: Margrét ósátt:9 milljarðar í höfuðstöðvar Landsbankans – Af hverju ekki að fjölga frekar hjúkrunarfræðingum?
Sjá einnig: Nýja Landsbankahúsið álíka gáfuleg hugmynd og DVD-verksmiðja:„Hvaða fólk eiga nýju höfuðstöðvarnar að hýsa?“