„Verði af sölu banka gætum við breytt hugmyndum um gjaldtöku á nýjum leiðum og hér á Reykjavíkursvæðinu, ég sæi fyrir mér að vegtollar myndi einskorðast við stærstu mannvirki eins og ný Hvalfjarðargöng og Sundabraut og eftir atvikum stöku verkefni sem flýta á sérstaklega. Stór verkefni í vega- og hafnagerð bíða og svo þarf nýjan gagnastreng til landsins. Öll þessi verkefni skapa atvinnu og auka verðmætasköpun,“
segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, við Morgunblaðið í dag.
Hann tekur sérstaklega fram að selja ætti hlut í Íslandsbanka, en eigið fé hans er um 170 milljarðar:
„Miðað við verðmat markaðarins á fjármálafyrirtækjum er ólíklegt að við fengjum fullt bókfært verð fyrir bankann. Það er engu að síður rétt að mínu mati að losa um eignarhaldið í skrefum og 25% hlutur í bankanum er tuga milljarða króna virði. Þá fjármuni ættum við að nýta til arðbærra fjárfestinga í innviðum,“
segir Bjarni og bætir við:
„Nú þegar hagkerfið kólnar er augljós kostur að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum og verja fjármunum sem þannig fást í innviðafjárfestingar. Með slíku getur ríkið styrkt grunnstoðir og komið með innspýtingu eins og nú er þörf á.“