Fáar bækur hafa haft jafnmikil áhrif á mig og þessi hér. Verdens bedste film, útgefin af forlagi Politiken í Danmörku í kringum 1970. Ég eignaðist þessa bók þegar ég var strákur, varla meira en svona 11-12 ára, fann hana í bókabúð Snæbjarnar í Hafnarstræti. Hún inniheldur lýsingar á úrvalsmyndum allt frá skeiði þöglu myndanna. Þarna er að finna umsagnir, stuttan söguþráð, lista yfir höfunda, leikara og tökumenn og svo ljósmynd úr hverri kvikmynd. Ég lá í þessari bók og kunni hana næstum utan að.
Svo einsetti ég mér að sjá allar myndirnar í bókinni. Það var ekki sérlega auðvelt verk. Stundum kom ein og ein í sjónvarpið. Ég man eftir Kanal eftir Wajda, Bringing up Baby með Cary Grant og Katherine Hepburn, Kind Hearts and Coronets með Alec Guinness, It Happened one Night eftir Frank Capra.
Svo rættist mjög úr þegar kvikmyndaklúbburinn Fjalakötturinn tók til starfa árið sem ég byrjaði í menntaskóla – undir stjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar (ég fæ aldrei nógsamlega þakkað honum kvikmyndauppeldið). Síðan náði maður að sjá eina og eina mynd i utanlandsferðum, í listabíóum í París og London og á kvikmyndasöfnum. Eina man ég að ég sá á kvikmyndasafninu í Jerúsalem, aðra í Sjónleikarahúsinu í Færeyjum – það var Sjöunda innsiglið eftir Bergman.
Þarna var skrifað um þöglar myndir eftir D. W. Griffith, Chaplin, þýska expressjónismann, Fritz Lang og Murnau, gamanmyndir með Cary Grant, söngvamyndir úr Hollywood, vestra eftir John Ford, breskar Ealing-kómedíur, ítalska ný-realismann, Reiðhjólaþjófana og Umberto D, japönsku meistarana Mizoguchi, Ozu og Kurosawa, Sovétmanninn Eisenstein, frönsku nýbylgjuna og svo Bergman og Bunuel, Wajda og Antonioni. Þetta mótaði kvikmyndasmekk minn – hann er satt að segja mjög listabíóslegur.
Bókin góða er því miður löngu glötuð. Hún varð viðskila við mig á einhverjum af mínum fjölmörgu vinnustöðum. Ég hef tekið hana með á eitt af blöðunum sem ég vann á og hún hefur orðið eftir uppi í hillu. Blaðið örugglega löngu farið á hausinn – eins og flestir fjölmiðlar sem ég hef unnið á.
Ég held samt að ég hljóti að vera búinn að sjá næstum allar myndirnar í bókinni. Ég man næstum hverja síðu fyrir sig og í gærkvöldi bætti ég við einni mynd sem ég minnist glöggt úr bókinni. Það er japönsk mynd sem heitir Konan í sandhólunum, er frá 1964, var tilnefnd til tvennra Óskarsverðlauna, fór sigurför um listabíóin, er byggð á frægri skáldsögu, er í rauninni staðleysa en virkar nú á mann eins og forveri að hrollvekjum sem var farið að gera löngu síðar á Vesturlöndum.