„Samherji hefur gripið til ráðstafana til að innleiða nýtt stjórnunar- og regluvörslukerfi. Ákvörðun um innleiðingu kerfisins var tekin á grundvelli reynslu af starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Nýja kerfið verður hluti af framtíðarstjórnun Samherja samstæðunnar og mun ná til Samherja og allra dótturfyrirtækja,“
segir í tilkynningu á vef Samherja í dag.
Björgólfur Jóhannsson starfandi forstjóri Samherja, segir stefnt að því að ljúka innleiðingu kerfisins síðar á þessu ári:
„Samherji mun þróa og innleiða heildrænt stjórnunar- og regluvörslukerfi sem byggist á áhættuskipulagi fyrirtækisins, meðal annars með áherslu á spillingu, efnahagslegar refsiaðgerðir og peningaþvætti. Þetta kerfi mun gegna lykilhlutverki í nýrri áætlun þar sem við munum krefjast þess að allir starfsmenn taki virkan þátt í ferli til að endurmeta gildi okkar, menningu og starfsvenjur. Við munum síðan innleiða verkferla fyrir áhættumat og siðareglur í samræmi við kerfið.“
Í tilkynningunni er haft eftir Björgólfi að tekist hafi að verja öll sambönd við viðskiptavini og samstarfsaðila, þrátt fyrir „alvarlegar ásakanir“ á hendur félaginu í fjölmiðlum.
„Starfsmenn okkar hafa, eins og alltaf, unnið frábært starf til að ganga úr skugga um við afhendum afurðir í hæsta gæðaflokki hér heima og á hinum alþjóðlega markaði,“
segir Björgólfur.
Þá kemur fram að Samherji sé um þessar mundir að draga úr starfsemi sinni í Namibíu með það að markmiði að hætta alfarið rekstri í landinu:
„Hins vegar er ljóst að það mun taka einhvern tíma. Allar ákvarðanir vegna starfseminnar í Namibíu verða teknar í nánu samráði við þar til bær stjórnvöld og í samræmi við gildandi lög og reglur.“