Björgun flugfélagsins Flybe er hugsanlega til marks um breytta stefnu Íhaldsflokksins undir stjórn Boris Johnson – þá í átt frá frjálshyggju, því að láta „viðskiptalögmálin“ gilda, en í átt til aukinna ríkisafskipta og byggðastefnu. Þetta er þá talsvert annar Íhaldsflokkur en hefur verið frá tíma Margaret Thatcher – þótt áherslur frá tíma hennar hafi á sumum sviðum mildast þá fylgdi til dæmis David Cameron harðri aðhaldsstefnu í fjármálum.
Flybe er flugfélag sem var gjörsamlega á hausnum, með ósjálfbæran rekstur, var keypt í fyrra af fyrirtækjasamsteypu sem líka á Virgin Air fyrir smáaura. En er nú aftur við dauðans dyr. Flugrekendur á Bretlandi eru æfir yfir þesssum inngripum ríkisins, British Airways, Ryanair og Easy Jet kvarta og segja að skattgreiðendur eigi ekki að bjarga flugfélögum. Það hefur líka verið reglan hingað til – eiginlega alveg frá því Verkamannaflokkurinn var í stjórn fyrir tíma Thatcher og stóð í margvíslegum ríkisinngripum til að halda atvinnulífi gangandi. Það er kannski tímanna tákn að verkalýðsfélög fagna þessari gjörð ríkisstjórnar Johnsons.
Flybe hefur flogið á leiðum sem teljast varla ábatasamar, þannig flýgur félagið mikið frá Southampton og Belfast. Þegar Thomas Cook fór á hausinn í fyrra voru önnur félög ekki lengi að næla sér í pláss Thomas Cook á Gatwick, en líklega myndu pláss Flybe standa auð í þessum borgum.
Breska stjórnin gefur Flybe eftir skatta sem eru innheimtir af farþegum og það mun bæta fjárhagsstöðu félagsins – að minnsta kosti tímabundið. Við munum reyndar greiðslufrestinn sem WOW fékk af flugvallargjöldunum hér heima á Íslandi. Við getum velt því fyrir okkur nú hvort eitthvað vit hefði verið fyrir íslenska ríkið að bjarga WOW?
Johnson hefur sagt að Brexit muni gefa stjórn hans meiri færi á því að beita ríkisaðstoð í meiri mæli. Þarna gætu verið teikn á lofti um stefnubreytingu. Og þá erum við að tala um Íhaldsflokk sem á sinn hátt færist til vinstri, burt frá hugmyndafræði Thatcher en á sama tíma í átt til meiri þjóðernisstefnu. Hið alþjóðasinnaða blað The Economist segir að þetta veki upp vondar minningar frá árunum milli 1970 og 1980.