Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir bæði núverandi og fyrrverandi þingmenn sem kvartað hafa undan vinnutímanum á Alþingi og segja hann ófjölskylduvænan.
Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar og fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, sagði einmitt í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að þingmannsstarfið hafi einmitt mátt flokka sem ófjölskylduvænt og því hefði hann ekki hug á því að bjóða sig aftur fram til Alþingis.
Þessi sjónarmið hafa oft skotið upp kollinum á liðnum árum. Meðal þeirra sem hafa sagt Alþingi ófjölskylduvænan vinnustað eru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Ásgerður Gylfadóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins, sem lagði fram þingsályktunartillögu í lok síðasta árs um að Alþingi yrði gerður að fjölskylduvænum vinnustað, ásamt fimm öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins.
Brynjar segir að vinnutíminn ætti ekki að koma neinum á óvart:
„Margir þingmenn, bæði núverandi og fyrrverandi, kvarta sáran yfir því að starf þingmannsins sé ekki fjölskylduvænt. Eins og að eðli starfsins hafi verið þeim hulið þegar þeir buðu sig fram. Svona svipað að þeir sem réðu sig í vaktavinnu kæmi á óvart að þurfa að vinna stundum á kvöldin og gætu því ekki alltaf lesið fyrir börnin fyrir svefninn.“
Brynjar viðurkennir að vissulega megi skipuleggja störfin í þingsal betur, en þau séu ekki nema brot af starfi þingmanns:
„Þessir örfáu þingfundir á kvöldin og stundum inn í nóttina gerir starfið, ef starf skyldi kalla, er ekki ófjölskylduvænt. Svo hafa þingmenn meira svigrúm en launþegar almennt og mætti í raun segja að starf þingmannsins sé fjölskylduvænna en gengur og gerist. Svo má ekki gleyma því að aðstoð við þingmenn heftur aukist til muna og létt undir. En stjórnmálamaður sem eitthvað vill leggja til málanna er þó alltaf í vinnunni og valdi það hlutskipti.“