Samkvæmt nýjum umferðarlögum sem tóku gildi um áramót, má ekki keyra um vistgötur á meiri hraða en 10 km/klst. Í eldri lögunum var hámarkshraði í vistgötu 15 km/klst.
Til samanburðar er gönguhraði fullorðinna talinn vera um 5 km/klst. Fjallað er um þetta í Morgunblaðinu í dag.
Lögum samkvæmt getur lögregla því svipt ökumenn sem keyra á tvöföldum hraða, ökuréttindum í þrjá mánuði auk þess sem ökufantarnir mega eiga von á hárri hraðasekt.
Ef hraðinn mælist meiri en 10 km/klst er sektin 20 þúsund krónur, en 40 þúsund krónur ef hraðinn er meiri en 20 km/klst. Sem fyrr eru þó ákveðin vikmörk í mælingum lögreglu, ekki er byrjað að sekta fyrr en hraðinn er 5 km/klst yfir leyfðum hámarkshraða.
Samkvæmt Guðbrandi Sigurðssyni aðstoðaryfirlögregluþjón umferðardeildar, hyggst lögreglan þó halda aftur af sér þegar kemur að viðurlögunum, að minnsta kosti fyrst um sinn:
„Við munum ekki fara fram með neinu offorsi. Við sjáum til hvernig málin þróast á þessu ári. En ákvæðið um hraðakstur er af hinu góða og hvetur fólk til varfærni.“
Þá er haft eftir Guðbrandi að hraðakstur á vistgötum hafi ekki verið mikið vandamál hingað til og ekki hafi borist kvartanir um slíkt að honum vitandi, heldur sé kvartað yfir því hvernig bílum geti verið lagt í vistgötum.
Vistgötur
Vistgata er gata þar sem umferð gangandi vegfarenda og hægfara faratækja — eins og reiðhjóla, hjólaskauta eða hjólabretta — hefur forgang fram yfir umferð bíla. Venjulega er hraði takmarkaður við gönguhraða og gangandi vegfarendum, börnum að leik o.s.frv. er heimilt að nota götuna til jafns við bíla. Slíkar götur eru hannaðar með því augnmiði að minnka hraða bifreiða, t.d. með hraðahindrunum og með því að hafa bílastæði til skiptis öðrum hvorum megin götunnar.
Vistgötur í Reykjavík eru fjölmargar. Samkvæmt Morgunblaðinu eru þær eftirfarandi:
Grjótagata, Mjóstræti, Brattagata, Fischersund, Aðalstræti milli Fischersunds og Vesturgötu, Vesturgata milli Grófarinnar og Aðalstrætis, Tryggvagata milli Lækjargötu og Pósthússtrætis, Kolasund, Hafnarstræti frá Kolasundi að Pósthússtræti. Smiðjustígur milli Laugavegar og Hverfisgötu, Haðarstígur, Válastígur. Beykihlíð, Birkihlíð, Lerkihlíð, Reynihlíð og Víðihlíð Seljahverfi, Kaldasel, á milli nr. 18-24 og nr. 4-14.