Á árinu 2019 barst Vinnumálastofnun 21 tilkynning um hópuppsögn, þar sem 1.046 manns var sagt upp störfum. Flestir hafa misst vinnuna í flutningum, 540 eða tæp 52% allra hópuppsagna, í byggingariðnaði 104, eða um 10% og 102 í fjármála – og vátryggingastarfsemi eða tæp 10%. Alls 227 uppsagnanna koma til framkvæmda á þessu ári.
Ekki hafa borist svo margar tilkynningar um hópuppsagnir frá því árið 2009, en þá var fjöldi hópuppsagna 1.780. Þetta kemur fram í samantekt Vinnumálastofnunar.
Samtals hefur 12.560 manns verið sagt upp í hópuppsögnum á 12 árum. Flestir misstu vinnuna á þriggja mánaða tímabili frá desember 2008 til febrúar 2009 og svo næstu 3 mánuði þar á eftir.
Á töflunni fyrir neðan má sjá að hópuppsögnum hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2014.
Niðurstöður starfaskráningar Hagstofunnar benda til þess að um 2.500 störf hafi verið laus á íslenskum vinnumarkaði á fjórða ársfjórðungi 2019 en á sama tíma hafi um 229.500 störf verið mönnuð. Hlutfall lausra starfa var því rétt um 1,1%.
Í nóvember mældist hinsvegar atvinnuleysi 4.1 prósent, sem var hækkun um 0.3 prósentustig frá því í október. Að jafnaði voru 7.617 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í nóvember og fjölgaði um 578 frá október. Alls voru 3.006 fleiri á atvinnuleysisskrá í nóvember 2019 en í nóvember árið áður.
Í nóvember var gert ráð fyrir að skráð atvinnuleysi myndi aukast enn í desember og yrði á bilinu 4,2% til 4,4%.
Lauslega reiknað eru því um 8000 manns atvinnulausir og laus störf eru aðeins um 2500 talsins.