Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn, gagnrýnir núverandi borgarstjórnarmeirihluta harðlega í Morgunblaðinu í dag.
Tekur hann sérstaklega fyrir gríðarlega umsvifamikil byggingaáform í Elliðaárdal, skort á mislægum gatnamótum, Sundabrautina og aðförina að einkabílnum.
Fær Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og meirihlutinn ekki góða umsögn frá Vilhjálmi:
„Í mörgum stórum mikilvægum málum sem meðal annars varða aukið umferðaröryggi á vegum borgarinnar og verndun umhverfis hefur núverandi meirihluti í Reykjavík sýnt af sér bæði ráðaleysi og yfirgang.“ /
„Trúlega er Reykjavík nú í hópi þeirra borga þar sem skipulag umferðar er í hvað mestum ólestri, að teknu tilliti til mannfjölda og efnahags.“
„Borgarfulltrúi meirihlutans segir að þetta svæði líti illa út, þar sé stunduð vafasöm starfsemi og þar megi jafnvel sjá kanínur á ferli,“
segir Vilhjálmur og nefnir að stefnt sé á að byggja um 12.000 fermetra norðan Stekkjabakka á fjórum lóðum:
„Einnig er útilokað að Stekkjarbakkinn verði fjögurra akreina gata eins og áður var stefnt að. Umferð um Stekkjarbakkann er þegar orðin verulega mikil og stefnir í óefni. Fjölgun gangandi og hjólandi vegfarenda mun ekki leysa umferðarvandann á þessari götu.“
Vilhjálmur segir meirihlutann aldrei hafa sýnt Sundabraut áhuga, en nú loksins þegar það sé gert með samgöngusamkomulaginu, sé farin vitlaus leið, bókstaflega. Hann gagnrýnir Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra fyrir þá stefnu:
„Hann telur að lágbrú með tengingu við Holtaveg sé besti kosturinn. Aðalskipulag Rvk. 2010-2030 gerir ekki ráð fyrir tengingu Sundabrautar við Holtaveg. Gallinn við þá lausn er m.a. sá að starfsemi hafnarinnar við Vogabakka mun skaðast verulega. Meirihlutinn í Reykjavík eyðilagði besta kostinn, þ.e. lágbrú með tengingu við Kleppsmýrarveg, með úthlutun lands við Elliðaárvog fyrir um 350 íbúðir. Áform samgönguráðherra um að hefja undirbúning að framkvæmdum við Sundabraut er greinilega ekki vegna hvatningar frá borgaryfirvöldum.“
Vilhjálmur argast út í meirihlutann fyrir að setja sig á móti mislægum gatnamótum og segir það skýra það umferðaröngþveiti sem ríkir daglega á höfuðborgarsvæðinu:
„Borgarfulltrúar meirihlutans virðast umhverfast þegar minnst er á mislæg gatnamót. Aðgerðaleysi meirihlutans í þeim efnum hefur ekki síst átt stóran þátt í því að algjört umferðaröngþveiti ríkir nú á götum borgarinnar.“
Hann nefnir að árið 2017 hafi minnihlutinn lagt fram tillögu um mislæg gatnamót í samvinnu við Vegagerðina, við Reykjanesbraut/Bústaðarveg, til að auka umferðaröryggi, draga úr mengun og auka umferðaflæði:
„Ein lítil breyting var þó gerð á texta með tillögunni að beiðni meirihlutans, sem var samþykkt. Það var að í stað orðanna „gerð mislægra gatnamóta“ kæmi „útfærsla gatnamóta“. Feluleikur meirihlutans. Þrátt fyrir skýra andstöðu meirihlutans mörg undanfarin ár við mislæg gatnamót á fyrrnefndum gatnamótum er ljóst að Sigurður Ingi samgönguráðherra hefur þvingað þau inn í nýgerðan samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“
Þá telur Vilhjálmur að meirihlutinn líti á einkabílinn sem upprót alls ills:
„Einkabíllinn hefur orðið fyrir miklum ónotum frá borgarfulltrúum meirihlutans. Honum er kennt um allt það vandræðaástand sem nú ríkir á götum borgarinnar þegar staðreyndin er sú, að aðgerðaleysi meirihlutans í stofnbrautarframkvæmdum í a.m.k. 10 ár er aðalástæðan. Það er t.d. afar líklegt að borgarfulltrúar meirihlutans noti einkabílinn svipað og flestir borgarbúar sem eiga einkabíl. En meirihlutinn kýs oftast að horfa framhjá staðreyndum sem blasa við í umferðarmálum höfuðborgarinnar. Það er helsta ástæðan fyrir því umferðaröngþveiti sem er flesta daga á götum Reykjavíkur og víðar á höfuðborgarsvæðinu.“